Hafa áhyggjur af íslenskunni

Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir þingflokksformenn lýstu áhyggjum sínum af stöðu íslenskrar tungu í umræðum um störf þingsins á Alþingi í morgun, þær Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Svandís benti á að 200 milljónir króna á ári vantaði í varnarbaráttu fyrir íslenskuna og sagðist vænta þess að myndarleg breytingatillaga við fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar yrði lögð fram af hálfu stjórnvalda um slíkt framlag. Ef ekki kæmi til þess myndi minnihlutinn leggja slíka tillögu fram og vænti hún þverpólitísks stuðnings við hana. Fara yrði í þessa baráttu strax.

Ragnheiður tók undir með Svandísi og sagði nauðsynlegt að standa vörð um íslenskuna og menningararfinn. Lagði hún áherslu á að íslensk tunga væri það sem öðru fremur sameinaði þjóðina og Íslendingum bæri að standa vörð um hana og menningararf þjóðarinnar.

Frétt mbl.is: Íslensk tunga á stutt eftir

Ragnheiður Ríkharðsdóttir
Ragnheiður Ríkharðsdóttir mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert