Stækkunardeild Evrópusambandsins lítur svo á að afstaða Íslendinga til aðildar sé innanlandsmál. Því er ekki svarað hvort umsóknin frá árinu 2009 sé mögulega í gildi.
„Afstaða Íslands til ESB-aðildar heyrir til umræðu innanlands á Íslandi. Það er ekki hlutverk framkvæmdastjórnarinnar að blanda sér í slíkt. Framkvæmdastjórnin veltir ekki vöngum yfir mögulegri framvindu mála í framtíðinni,“ sagði í svari stækkunardeildar ESB.
Tilefni fyrirspurnarinnar, sem send var 30. nóvember, var ummæli Matthias Brinkmann, sendiherra ESB, í blaðinu miðvikudaginn 25. nóvember. Var þar haft eftir Brinkmann að óvíst væri hvort Ísland þyrfti að leggja fram nýja umsókn eða hvort nóg væri að draga fram umsóknina sem lögð var fram 2009 og sett á ís af fyrri ríkisstjórin í ársbyrjun 2013.