„Vatn fossaði niður um sprungur“

Ástandið á Grensásdeild er afar erfið.
Ástandið á Grensásdeild er afar erfið. mbl.is/Eggert

„Við erum óþægilega minnt á það að viðhald húsa hefur setið á hakanum allt of lengi vegna undirfjármögnunar. Sjúklingar, bæði á Grensási og í húsi geðdeildar við Hringbraut, vöknuðu við það að vatn fossaði niður um sprungur og göt í loftum,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, í pistli sem hann birtir á heimasíðu sjúkrahússins.

Páll heimsótti Grensás í morgun og segist hann hafa séð með eigin augum að ástandið sé mjög erfitt.

„Í báðum tilfellum er um að ræða óvenjulegt álag en jafnframt húsnæði sem löngu er tímabært að laga.  Fjármagn til viðhalds húsakosts spítalans hefur verið takmarkað og ekki unnt að  að sinna viðhaldi í tíma.  Því bíður okkar nú kostnaðarsamt neyðarviðhald sem verður þá að koma af fé sem ætlað var til annarra mikilvægari (en minna áríðandi) verkefna,“ skrifar Páll í pistlinum.

Þá bendir hann á, að það sé gömul saga og ný og minni enn á mikilvægi þess að byggja upp innviði þjóðarsjúkrahússins, bæði varðandi viðhald en þó enn frekar þegar komi að nýjum Landspítala og haga fjármögnun Landspítala þannig að hún sé alltaf rétt og í samræmi við verkefnin.

Fyrri fréttir mbl.is um ástandið á Grensásdeild 

Meðferðarherbergi eru ónothæf

„Höfum aldrei lent í þessu áður“

Mikill vatnsleki á Grensásdeild

Umræða um fjármögnun spítalans komst rækilega til skila

Páll ræðir einnig um fjárlagafrumvarp næsta árs. Hann segir að áhyggjur stjórnenda sjúkrahússins af frumvarpinu og fjármögnun spítalans til lengri tíma hafi komist rækilega til skila í umræðum í vikunni.

„Tillaga heilbrigðisráðherra um að láta gera athugun á fjárhagsgrunni Landspítala er mikilvæg og skynsamleg leið til að mæta þeim áhyggjum okkar sem lúta að langtímafjármögnun. Með því móti er hægt að sjá hvað rekstur spítalans kostar í samanburði við svipaða spítala í nágrannalöndum. Við vitum að árangur Landspítala er á mörgum sviðum framúrskarandi en rekstrarkostnaður óvenju lágur og fögnum við því að farið sé að skoða tölurnar,“ skrifar Páll.

Hann segir að það sé langtímaverkefni að bæta undirfjármögnun til áratuga. Því verkefni verði best mætt með því að bæta fjármögnunarmódel spítalans þannig að fé fylgi verkefnum. Launabætur eigi að vera í samræmi við útborguð laun og fé til viðhalds bygginga í samræmi við þörf. Slíkar kerfisbreytingar muni taka tíma enda hugsaðar til lengri framtíðar.

„Til skemmri tíma  er afar mikilvægt að halda til haga þeim vanda sem við blasir í fjármögnun spítalans árið 2016 enda þurfum við að hafa burði til að sinna skyldu okkar sem þjóðarsjúkrahús á meðan við búum okkur til framtíðar,“ segir forstjórinn.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert