100 milljarða aukning á tveimur árum

Gert er ráð fyrir að 1,3 milljónir ferðamanna komi til …
Gert er ráð fyrir að 1,3 milljónir ferðamanna komi til landsins á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök ferðaþjónustunnar gera ráð fyrir að heildargjaldeyristekjur í ferðaþjónustu muni nema um 368 milljörðum króna í ár. Ef spáin gengur eftir hafa útflutningstekjur greinarinnar aukist um tæplega 100 milljarða á aðeins tveimur árum.

Þetta kemur fram í spá samtakanna um fjölda ferðamanna og gjaldeyristekjur fyrir árið 2015.

Mestu munar um 316 milljarða króna vegna útgjalda erlendra ferðamanna innanlands ásamt fargjaldatekjum í erlendri mynt til og um Ísland. 

Í nýjum tölum um þjónustuviðskipti milli landa kemur fram að á þriðja ársfjórðungi ársins hafi þjónustujöfnuður við útlönd verið jákvæður um 90,4 milljarða króna og munar þar mest um tekjur í ferðaþjónustu.

1,3 milljónir ferðamanna á árinu

Það sem af er árinu hefur fjölgun ferðamanna verið um þrjátíu prósent frá fyrra ári og í spánni er gert ráð fyrir að heildarfjöldi erlendra ferðamanna á árinu 2015 verði rúmlega 1,3 milljónir.

Það eru ekki mörg ár síðan að Íslendingar bjuggu að jafnaði við neikvæðan ferðajöfnuð enda ekki verið mikið ferðaþjóð í gegnum tíðina. Á tíunda áratugnum komu að meðaltali um 380 þúsund erlendir ferðamanna á ári til landsins en á sama tíma fóru árlega um 335 þúsund Íslendinga til útlanda.

Þrátt fyrir að Íslendingar hafi ferðast að mestu með innlendum fyrirtækum til útlanda voru útgjöld þeirra töluvert meiri erlendis en þeirra erlendu gesta sem komu til Íslands. Nú horfir þetta öðruvísi við.

Í ár er gert ráð fyrir að um 448 þúsund Íslendingar fari til útlanda eða þrefalt færri en fjöldi erlendra ferðamanna sem koma til landsins.

Styðja við vöxtinn í skammdeginu

Samtökin benda á að fjöldi alþjóðlegra ráðstefna yfir vetrarmánuðina, tónlistarhátíðir og aðrir viðburðir hafi stutt mjög við vöxtinn yfir svartasta skammdegið. „Þessir viðburðir draga m.a. fram hagræn áhrif nýrra atvinnugreina eins og ferðaþjónustu, skapandi greinar og ýmsa menningar- og afþreyingarþjónustu á sama tíma og þær glæða allt mannlíf og gera það litríkara fyrir landsmenn alla,“ segir í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónunnar.

Ef spáin gengur eftir hafa gjaldeyristekjur aukist um 100 milljarða …
Ef spáin gengur eftir hafa gjaldeyristekjur aukist um 100 milljarða á tveimur árum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert