Tilraun Bjarna í ESB-málinu gangi ekki upp

Styrmir Gunnarsson.
Styrmir Gunnarsson. Mbl.is/RAX

Það álit Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að ESB-umsóknin sé ekki í gildi dugar ekki til. Það er afstaða ESB sem skiptir máli. Þetta er mat Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins.

Styrmir fjallar á vef sínum um viðtal við Bjarna í Morgunblaðinu í dag.

Tilefni viðtalsins voru þau ummæli Matthias Brinkmann, sendiherra ESB á Íslandi, í Morgunblaðinu 25.nóvember, að umsóknin sé mögulega í gildi, og það svar stækkunardeildar ESB í Morgunblaðinu í gær, að staða umsóknarinnar sé innanlandsmál á Íslandi. Var því ekki svarað hvort umsóknin væri í gildi.

Tilraun til að verja klúður

Styrmir skrifar:

„Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gerir tilraun til að verja klúður ríkisstjórnarinnar við afturköllun aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu í samtali við Morgunblaðið í dag. Sú tilraun gengur ekki upp. Bjarni segir:

„Ég lít þannig á að það sé ekki í gildi umsókn Íslands að ESB.“

Því miður dugar þessi skoðun Bjarna á því ekki til, að þannig sé litið á málið í Brussel, eins og fyrst var sagt af sendiherra ESB á Íslandi og síðar staðfest af stækkunardeild ESB.

Bjarni segir:

„Ég lýsi yfir furðu á því að það skuli vera einhverjum vafa undirorpið af Evrópusambandsins hálfu, hver staða málsins er. Þeir hafa fengið mjög skýr skilaboð að minnsta kosti frá þeim, sem fer fyrir utanríkisstefnunni og forsætisráðherra.“

Það liggur nú fyrir staðfesting á því að þau skilaboð hafa ekki verið nægilega skýr, hvort sem Bjarna líkar betur eða ver.“

Hafa glatað trúverðugleika í ESB-málinu

Styrmir rifjar upp loforð stjórnarflokkana í Evrópumálum:

„Bjarni segir:

„Í því sambandi finnst mér öllu skipta að hér á Íslandi heyrist mér að menn séu hættir að tala fyrir öðru en því að frekari skref í þessu máli verði ekki stigin án samráðs við þjóðina. Það kemur ekkert annað til greina, ef slíkt kæmi á annað borð upp á, en að þjóðin væri spurð, hvort hún styddi það að lögð yrði fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu.“

Er það ekki rétt munað að núverandi stjórnarflokkar hafi fyrir þingkosningarnar vorið 2013 lofað samráði við þjóðina um þetta mál, kæmust þeir til valda?

Og blasir ekki við að nú þegar komið er fram yfir mitt kjörtímabil hafa þeir ekki sýnt nokkur merki þess að ætla að standa við þau fyrirheit?

Þeir geta að vísu enn efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um spurninguna af eða á haustið 2016. En dettur einhverjum í hug að þeir geri það?

Því miður er það svo, þegar hér er komið sögu, að það verða ekki margir kjósendur, sem taka mark á svona yfirlýsingum af hálfu núverandi stjórnarflokka,“ skrifar Styrmir.

Grein Styrmis má lesa í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert