Erfitt er að sjá með hvaða hætti TISA-samningar myndu vinna gegn markmiðum í loftslagsmálum. Þetta kemur fram í svari Utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn mbl.is vegna skjala sem Wikileaks hefur birt um viðræður vegna TiSA.
Samkvæmt greiningu alþjóðlegu samtakanna PSI verður samningurinn til þess að erfiðara verði fyrir stjórnvöld að fylgja eftir því samkomulagi sem kann að nást á loftslagsráðstefnunni í París.
Í svari ráðuneytisins segir að TiSA-viðræðurnar séu tilraun yfir 50 ríkja til að greiða enn frekar fyrir viðskiptum með þjónustu en nú er. Þjónustuviðskipti samsvara um 36 prósentum af heildarviðskiptum Íslands við umheiminn.
„Markmið Íslands og Noregs með tillögum um orkutengda þjónustu er að greiða fyrir því að sú sérfræðikunnátta sem byggst hefur upp á Íslandi á undanförnum áratugum, t.d. á sviði nýtingar jarðhita, geti átt sem greiðastan aðgang að öðrum mörkuðum kjósi viðkomandi ríki að nýta til dæmis jarðhita,“ segir utanríkisráðuneytið.
„Í tillögu Íslands og Noregs um orkutengda þjónustu er kveðið á um tilteknar skuldbindingar samningsaðilanna um gagnkvæman markaðsaðgang fyrir þjónustuveitendur hinna ríkjanna fyrir orkutengda þjónustu. Í tillögunni er fullveldi og yfirráðaréttur ríkjanna yfir eigin orkuauðlindum sérstaklega áréttaður.“
Einnig kemur fram að engar breytingar verði gerðar á íslensku lagaumhverfi vegna TiSA varðandi auðlindamál. „Hvert ríki setur sína eigin löggjöf þar um, framfylgir henni og tekur eigin ákvarðanir um með hvaða hætti orkuauðlindir og aðrar auðlindir eru nýttar,“ segir í svarinu.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, gagnrýndi TiSA-viðræðurnar harðlega í gær og sagði að um leynibrugg væri að ræða.
Nánari upplýsingar um TiSA-samningaviðræðurnar má finna á vefsíðu utanríkisráðuneytisins.