„Liggur hún ekki bara undir öllum?“

Myndin er tekin málþingi sem fram fór í HR sl. …
Myndin er tekin málþingi sem fram fór í HR sl. fimmtudag. Þar kom fram að tvær stúlkur hefðu verið hunsaðar, önnur beitt líkamlegu ofbeldi og þær hefðu fengið lítinn stuðning. mbl.is/Golli

Leiða má líkur að því að þegar nauðgun er kærð í litlu bæjarfélagi sé brotaþolanum refsað þar sem fólki finnst hann brjóta gegn gildum og venjum samfélagsins. Tvær konur, báðar íbúar í litlum bæjarfélögum, fluttu að lokum eftir að hafa upplifað ýmis einkenni refsingar frá bæjarbúum. Þær voru hunsaðar, önnur beitt líkamlegu ofbeldi, talað var um þær og þær fengu lítinn stuðning.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Guðrúnar Katrínar Jóhannesdóttur á sameiginlegu málþingi lagadeilda Háskólans á Bifröst og Háskólans í Reykjavík sem fór fram í HR á fimmtudag. Erindi hennar bar yfirskriftina „Þá kviknar bara eitthvað út í bæ sko sem síðan verður bara að þessu ógeði.”

Frétt mbl.is: Jafnt hlutfall í dómunum fjórum

Fjallaði hún um niðurstöður rannsóknar sinnar á viðbrögðum við nauðgunarkærum í litlum bæjarfélögum en þar skoðar hún þau ferli sem geta farið af stað þegar nauðgun er kærð í litlu bæjarfélagi. Rannsóknina gerði Guðrún Katrín vegna meistararitgerðar í félagsfræði sem hún mun skila í byrjun næsta árs.

„Þetta viðfangsefni varð fyrir valinu af ýmsum ástæðum en það sem ég held að hafi vegið mest var að ég man eftir svipuðu tilviki frá því að ég var unglingur og eins steig fram kona í fjölmiðlum ekki fyrir löngu síðan sem sagði frá reynslu sinni af því að hafa kært nauðgun í smábæ hér á Íslandi.

Eins hafði verið mikil umfjöllun um stúlku sem kærði nauðgun í smábæ í Bandaríkjunum þar sem áhrifamenn innan bæjarins beittu sér gegn stúlkunni,“ sagði Guðrún Katrín. Ákvað hún í samráði við leiðbeinanda sinn, Jón Gunnar Bernburg, að framkvæma tilviksrannsókn í tveimur bæjarfélögunum þar sem hún myndi ræða við stúlkurnar sem kærðu og aðra íbúa.

Brotaþolar eru oft sagðir hafa boðið upp á nauðgun með …
Brotaþolar eru oft sagðir hafa boðið upp á nauðgun með hegðun sinni AFP

Brotaþolinn ruggar bátnum í litlu samfélagi

„Þegar nauðgun á sér stað geta aðstæður verið þannig að fáir viti hvað gerðist í raun þar sem sjaldan eru vitni að atburðinum. Rannsóknir sýna fram á ríka tilhneigingu fólks til að skella ábyrgðinni á þolandann fremur en gerandann.

Í kjölfar þess að kæra nauðgun eða segja frá henni upplifa þolendur oft neikvæð viðbrögð frá heilbrigðisstarfsfólki og lögreglu, fjölskyldumeðlimum, vinum, kunningjum og öðrum. Þessi viðbrögð geta dregið er úr alvarleika brotsins, þolandinn er gerður ábyrgur, honum er ekki trúað og hann er hunsaður,“ sagði Guðrún Katrín.

Í rannsókninni styðst hún meðal annars við kenningar Durkheim um einsleit og fámenn samfélög. Hann benti á að í slíkum samfélögum séu meðlimirnir afar líkir í skoðunum og gildum og upplifðu oft mikla félagslega samstöðu. Sá sem brýtur gegn gildum og/eða venjum í slíku samfélagi uppskeri oft harða refsingu frá meðborgurum sínum.

„En einsleitni er einmitt eitt af því sem getur einkennt lítil bæjarfélög sökum þess hversu fámenn þau eru og þess vegna má leiða líkum að því að þegar nauðgun er kærð í litlu bæjarfélagi er brotaþolanum refsað þar sem fólki finnst hann brjóta gegn gildum og venjum samfélagsins. Hann ruggar bátnum,“ sagði Guðrún Katrín.

„Eins má gera ráð fyrir því að viðhorf til kynhlutverka séu hefðbundnari í minni bæjum á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, líkt og komið hefur í ljós erlendis. En niðurstöður rannsókna hafa sýnt að þeir sem hafa hefðbundin viðhorf til kynhlutverka taki að jafnaði síður mark á framburði þolenda í nauðgunarmálum.“

Stúlkurnar drukknar og lauslátar

Guðrún Katrín ræddi við tvær konur sem kærðu nauðgun innan síns bæjarfélags og átta einstaklinga sem bjuggu í bæjarfélögunum á því tímabili sem nauðgunin átti sér stað. Við greiningu á gögnunum úr viðtölunum komu fram ákveðin meginþemu, svo sem umtal, liðamyndun, refsing, bein vandlæting, hótanir og véfenging.

Báðar stúlkurnar upplifðu að það væri brotið á þeim, fyrir þeim lék enginn vafi á því. Það leið innan við sólarhringur frá því að þeim var nauðgað þar til þær kærðu og sögðu einhverjum nákomnum frá nauðguninni.

Þetta er athyglisvert og þá sér í lagi vegna þess hversu fáar nauðganir eru yfirleitt kærðar í okkar samfélagi, en eins og við munum sjá eru viðbrögðin sem stúlkurnar upplifðu einmitt þess eðlis að þau hvetja þolendur nauðgana til þess að kæra ekki,“ sagði Guðrún Katrín. „Umtal og slúður eru algeng í litlum bæjarfélögum og það líður ekki á löngu þar til að nauðgunarkæran verður aðal umræðuefni bæjarbúa.“

Mýtur og staðalímyndir um nauðganir hafa verið lífsseigar í orðræðunni. En með þeim er dregin upp fölsk ímynd af nauðgunum, þolendum og gerendum. .

Til að mynda ef kona er klædd á einhvern hátt sem þykir óviðeigandi, hefur ákveðið orðspor eða hefur á einhvern hátt gefið til kynna í upphafi að hún vildi stunda kynlíf, eins og með kossi eða með því að fara heim með þeim sem síðan nauðgar henni. Slíkir hlutir eru oft notaðir til að réttlæta ábyrgð konunnar sjálfrar á nauðguninni. Viðhorf sem þessi teljast til nauðganamýta,“ sagði Guðrún Katrín.

Bæjarbúi
Maður heyrði náttúrlega bara þetta: „Æ, liggur hún ekki bara undir öllum?“ Þú veist: „Er hún ekki bara algjör ekki bara?“

Önnur stúlkan
„Já, svo var bara mikið að tala um hvað hann væri góður strákur, hann myndi aldrei láta sér detta í hug að nauðga annarri manneskju. Þannig að ég hlyti bara að vera að ljúga.“

„Þær sögur sem urðu ofan á, í bæjarfélögunum, er hæglega hægt að tengja við ríkjandi mýtur og staðalímyndir um nauðganir. Umræðan snerist að mestu um að stúlkurnar væru að ljúga til um atburðinn, þær hefðu verið svo drukknar og að þær væru lauslátar. Drengirnir aftur á móti voru álitnir svo góðir strákar að þeir myndu aldrei nauðga,“ sagði Guðrún Katrín.

Yrtu ekki á hana þegar hún bauð góðan dag

„Það má segja að bæjarbúar hafi skipt sér í tvær eða jafnvel þrjár fylkingar. Einn hópurinn stóð með gerendunum, annar hópurinn stóð með stúlkunum og svo var það þriðji hópurinn sem neitaði að taka afstöðu. Sá hópur sem stóð með gerendunum var sá hópur sem heyrðist hvað mest í og hafði sig mest frammi. Þeir sem tilheyrðu þessum hópi voru ekkert endilega nákomnir gerendunum,“ sagði Guðrún Katrín.

Bæjarbúi
„........ mér fannst þetta ekki endilega vera hans vinir eða hennar vinir eða eitthvað þannig. Mér fannst þetta miklu frekar vera ..... bara það hafi  allir tekið sömu skoðun. Maður einhvern veginn svona fylgdi því og svo bara einhvern veginn..... Fólki fannst þetta ósanngjarnt gagnvart honum.“

Fólk sem tók ekki afstöðu og neitaði að tjá sig um málið virtist vera fólk sem jafnvel trúði stúlkunum en þorði ekki að tjá sig um það af ótta við þau viðbrögð sem þau gæru uppskorið fyrir vikið,“ sagði Guðrún Katrín. Stúlkurnar upplifðu báðar ýmis einkenni af refsingu eins og beina vandlætingu, vefengingu, útskúfun, líkamlegt ofbeldi, höfnun, umtal og lítinn stuðning. Bein vandlæting er gefin til kynna með augnaráði, hunsun og fúkyrðum.

Önnur stúlkan
„.....uu fólk yrti ekki á mig sem sagt ef ég sagði: “Góðan daginn”. Það var ekki sagt góðan daginn, vörurnar bara settar á bandið og hérna og fólk borgaði án þess að segja eitt né neitt.“

„Fólk dró í efa orð stúlknanna og taldi þær vera að ljúga til um nauðgunina. Báðar stúlkurnar voru mjög hissa þegar þær heyrðu af því. Eins og ég kom að áðan þá þurftu þær ekki að hugsa sig tvisvar um þegar kom að því að kæra, því fyrir þeim var svo skýrt að brotið hafði verið gegn þeim og þess vegna urðu þær svo hissa.

Bæjarbúi
„......mér finnst mér eins og allur bærinn hafi bara verið þeirrar, sömu skoðunar...... Að hann hefði ekki nauðgað henni......“

Nokkrir íbúar brugðust við með því að hóta stúlkunum á einhverjum tímapunkti.

Önnur stúlkan
„....og pabbi hans... hann, ég var skíthrædd við hann sko. Hann hérna ... einhvern tímann var ég að labba heim..... að nóttu til eða seint. Þetta hefur verið um tólfleytið, bærinn var eiginlega ó, auður og hann kom á móti mér í bíl. Og hann keyrði alveg að mér eins og hann ætlaði að keyra á mig. Og hérna, en svo vék hann skyndilega. Þá var ég hrædd.“

Önnur stúlkan var skíthrædd við föður annars gerandans. Einu sinni …
Önnur stúlkan var skíthrædd við föður annars gerandans. Einu sinni hélt hún að hann ætlaði að keyra á sig. mbl.is/Kristinn

 

Stúlkurnar upplifðu höfnun úr ýmsum áttum og þá upplifðu þær og fjölskyldur þeirra upplifðu mjög takmarkaðan stuðning. Bæjarbúar völdu oft að vera hlutlausir frekar en að segjast trúa þeim. Þeim virtist vera meira í mun að sýna þeim ákærðu og þeirra fjölskyldum stuðning. Faðir annarrar stúlkunnar sagði:

„Ég skal viðurkenna það sko að ég varð fyrir vonbrigðum með það hvað okkur var sýnd lítil hluttekning. Ég eiginlega bara náttúrlega mín systkini og það allra nánasta en. Ég var virkilega fyrir vonbrigðum hvað við fengum ... já, litla samúð........  En þarna var stór hópur sem var að þjappa sér upp að honum sko......“

Í öðru tilvikinu bar verulega á líkamlegu ofbeldi sem stúlkan varð fyrir að minnsta kosti tvisvar sinnum. Þá voru tvær stúlkur í bænum beittar ofbeldi eftir að hafa sýnt henni stuðning. Svona lýsir íbúi því þegar hann fylgdist með því að það var ráðist á stúlkuna:

Bæjarbúi
„Jú, jú, hún reif svoleiðis í hárið á henni...... Hékk í hárinu á henni...... Þetta var alveg. Hún var lamin sko. Ekki ryskingar. Þetta kallast að lemja.“

Gátu ekki hugsað sér að búa þar lengur

Það vakti athygli mína við vinnslu rannsóknarinnar að konur voru forsprakkar, í báðum tilvikunum, í að fara gegn stúlkunum og voru hvað grimmastar,“ sagði Guðrún Katrín. Faðir annarrar stúlkunnar sagði:

„Það þa fólk sem var aggressívast í þessu, það var kvenfólk. Svo undarlegt sem það er. Og fjöldinn allur af af hérna nú meira að segja gömlum kellingum þarna sem að ekkert þekktu dóttur mína. Ekki vitundarögn..... ég átta mig engan veginn á því.“

Þekktar tilfinningalegar afleiðingar nauðgunar eru meðal annars þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun, brostin sjálfsmynd, sektarkennd og erfiðleikar við að aðlagast félagslega. En rannsóknir benda einmitt til þess að félagslegur stuðningur hafi jákvæð áhrif á bata þolenda. Neikvæð viðbrögð geta því haft töluverðar afleiðingar á hversu vel þolendum tekst að vinna úr áfallinu sem nauðgun er.

Þannig að stúlkurnar urðu fyrir áfalli þegar þeim var nauðgað og viðbrögðin sem þær upplifðu urðu þeim svo annað áfall og hafði áhrif á sjálfsmynd þeirra og líðan. Þessi viðbrögð sem þær upplifðu gengu einmitt það nærri þeim að þær gatu ekki hugsað sér að búa lengur í bænum og fluttu því í burtu,“ sagði Guðrún Katrín.

Ef til vill má segja að takmörkun rannsóknarinnar sé sú að einungis er um tvö tilvik að ræða og í því ljósi væri áhugavert að skoða nýleg dæmi og víkka með því rannsóknina. En þessir atburðir áttu sér stað fyrir síðustu aldamót og umræðan um kynferðisofbeldi hefur verið að breytast og verið meira áberandi. Umræðan bendir þó til þess að full þörf sé á að skoða ýmsar hliðar kynferðisofbeldis frekar og þau áhrif sem það hefur.

 Það er einmitt það sem er næst á dagskrá en eftir að ég hef skilað af mér ritgerðinni munum við Jón Gunnar Bernburg, leiðbeinandi minn, hefja frekari rannsókn á þessu viðfangsefni þar sem ætlunin er að fjölga viðmælendum í þeim tilvikum sem ég hef skoðað auk þess að skoða tvö önnur nýlegri tilvik. Þannig að það má segja að rannsóknin sem ég er að kynna fyrir ykkur hér sé fyrsta skrefið í stærri rannsókn,“ sagði Guðrún Katrín að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert