Umfang þeirra viðskipta sem sérstakur saksóknari ákærir fyrir í Chesterfield-málinu svokallaða nemur 510 milljónum evra eða um 72 milljörðum á gengi dagsins í dag og 67-69 milljörðum á gengi þess tíma sem viðskiptin áttu sér stað. Þetta er svipuð upphæð og neyðarlán Seðlabankans til Kaupþings sem veitt var 6. október 2008, en það hljóðaði upp á 500 milljónir evra. Aðalmeðferð málsins hefst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en henni hafði áður verið frestað.
Í málinu eru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans, ákærðir fyrir stórfelld umboðssvik og fyrir að hafa valdið Kaupþingi „gríðarlegu og fáheyrðu“ fjártóni, að því er segir í ákæru. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er einnig ákærður í málinu fyrir hlutdeild í umboðssvikunum.
Þótt málið hafi orðið þekkt sem Chesterfield-málið nær það til lánveitinga sem fóru til sex félaga í heild. Voru þau öll skráð á Bresku Jómfrúareyjunum.
Kaupþing veitti félögunum Charbon Capital, Holly Beach og Trenvis samtals 130 milljón evra peningamarkaðslán svo þau gætu upp lán sem þau höfðu fengið 7. ágúst 2008 frá Kaupthing Bank Luxembourg. Þau lán höfðu verið notuð sem eiginfjárframlög félaganna í félaginu Chesterfield United, sem lagði umrædda fjármuni inn á reikning hjá Deutsche Bank í Lundúnum. Hafði 125 milljónum evra af þeim fjármunum verið varið til að greiða fyrir svonefnt Credit Linked Notes (CLN), eða lánshæfistengt skuldabréf, sem tengt var skuldatryggingaálagi Kaupþings banka og 5 milljónum evra verið varið í þókun til Deutsche Bank. Málið hefur einnig verið kennt við fyrrnefnda skammstöfun og er þá talað um CLN-málið.
Félögin voru í eigu stórra viðskiptavina bankans eða stjórnarmanna hans. Þannig var Antonios Yerolemou eigandi Charbon Capital, Skúli Þorvaldsson eigandi Holly Beach og Karen Millen og Kevin Stanford eigendur Trenvis.
Þá segir í ákærunni að félaginu Harlow, sem var í eigu Ólafs Ólafssonar, hafi verið veitt 130 milljón evra lán án tryggingar, án þess að lánshæfi þess væri metið eða án samþykkis þar til bærrar lánanefndar. Lánið var fært sem eiginfjárframlag inn í dótturfélagið Partridge sem lagði það áfram inn til Deutsche bank til að greiða fyrir CLN skuldabréfin.
CLN bréfin voru í báðum tilfellum tvöfalt skuldsett eða tvöfalt voguð, en það þýddi að Deutsche bank tók í upphafi áhættu á móti félögunum Chesterfield og Partridge, en samkvæmt skilmálum bréfanna gat bankinn kallað eftir viðbótarfjárframlögum frá félögunum, allt að 125 milljónum evra í hvoru tilviki, ef skuldatryggingarálag Kaupþings hækkaði upp fyrir ákveðin mörk. Sú varð raunin og í framhaldi af því lánaði Kaupþing Chesterfield og Partridge þessar upphæðir í nokkrum skrefum, meðal annars að hluta til eftir að neyðarlán Seðlabankans hafði verið veitt 6. október.
Eins og fyrr segir eru þeir Hreiðar Már og Sigurður ákærðir fyrir umboðssvik í málinu. Magnús er aftur á móti ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa ásamt þeim lagt á ráðin um umræddar lánveitingar Kaupþings og hvatt til að lánin yrðu veitt af hálfu Kaupþings til að greiða upp lán Kaupthing Bank Luxembourg til félaganna þótt honum hlyti að vera ljóst að Hreiðari og Sigurði brast heimild til lánveitinganna og að lánin hafi verið veitt án nokkurra trygginga svo veruleg fjártjónsáhætta hlaust af fyrir Kaupþing.
Með þessu hafi tjónshættu Kaupthing Bank Luxembourg vegna lánanna komið yfir á Kaupþing banka hf. Segir í ákærunni að Magnúsi hafi ekki getað dulist, í ljósi aðdraganda lánveitinganna og allra aðstæðna, að féð hafi verið greitt úr sjóðum Kaupþings banka með ólögmætum hætti.
Í sem stystu máli gengur því ákæra sérstaks saksóknara út á að Kaupþing hafi lánaða fjórum eignarhaldsfélögum samtals 260 milljón evrur sem fóru svo áfram til félaganna Chesterfield og Partridge sem keyptu lánshæfistengd skuldabréf (CLN) sem tengd voru skuldatryggingarálagi Kaupþings. Þegar harnaði á dalinn og Deutsche bank hóf veðköll vegna málsins var félögunum Chesterfield og Partridge lánað beint 250 milljónir evra til að mæta veðköllunum. Telur saksóknari að í þessum viðskiptum hafi falist umboðssvik og að útlánin séu með öllu töpuð.
Þremenningarnir hafa allir hlotið dóm áður í hrunmálunum svokölluðu. Voru þeir allir dæmdir í fangelsi í Al Thani-málinu, en þar fékk Hreiðar Már fimm og hálfs árs dóm, Sigurður fjögurra ára og Magnús var dæmdur í fjögur og hálft ár.
Í stóra markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings, sem dæmt var í fyrr á árinu í héraðsdómi, var Hreiðar ekki sýknaður, en ekki heldur gerð frekari refsing. Við dóm Sigurðar var aftur á móti bætt við einu ári. Magnús var einnig ákærður í því máli, en tveimur ákæruliðum var vísað frá og hann sýknaður að öðru leyti. Hefur málinu verið áfrýjað til Hæstaréttar. Þá hlaut Hreiðar Már sex mánaða fangelsi vegna Marple-málsins svokallaða fyrr á þessu ári og var Magnús þá dæmdur í 18 mánaða fangelsi.
Aðalmeðferð málsins hefst í dag og er reiknað með að hún taki um eina viku. Í lok síðustu viku var aðalmeðferðinni frestað tvisvar eftir að Hæstiréttur heimilaði ákærðu að fá aðgang að tölvupóstum fyrrum starfsmanna Kaupþings. Var dómur þess efnis kveðinn upp sama dag og aðalmeðferðin átti að hefjast og fengu því ákærðu nokkra daga til að kynna sér þau skjöl sem um ræðir.