Hreinsa allt af bryggjunum

Loðnuskip að veiðum við Þorlákshöfn í fyrra. Myndin er úr …
Loðnuskip að veiðum við Þorlákshöfn í fyrra. Myndin er úr safni. mbl.is/Golli

Bátaeigendur á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu eru byrjaðir að huga að bátum sínum fyrir fárviðrið sem spáð er í dag. Að sögn Guðmundar Þorkelssonar, hafnsögumanns í Þorlákshöfn, eru menn nú að hreinsa allt af bryggjunum þar því veðrið sem spáð er sé með því ljótara sem sést hafi.

Veðurstofan varar við ofsaveðri eða fárviðrið í dag og í kvöld, sérstaklega sunnanlands. Í Þorlákshöfn búa menn sig undir veðrið eftir bestu getu og ekki í fyrsta skipti því undanfarin vika hefur verið stormasöm.

„Við erum að hreinsa allt af bryggjunum, öll kör og allt saman. Við gerum bara ráð fyrir hinu versta, hvort sem spáin gengur eftir eða ekki. Flestallir voru nú með bátana vel bundna því það er búin að vera það slæm spá í kortunum núna síðustu daga. Menn eru nú samt að koma til öryggis, fara yfir þetta og bæta ennþá betur á böndum út af því að þetta er svona með því ljótara sem við höfum séð og verður verst hérna ekki langt frá okkur samkvæmt kortinu,“ segir Guðmundur.

Nánast allir bátar hafa legið í höfninni í heila viku vegna veðurs. Hafnsögumaðurinn segir að tveir minni bátar hafi farið út til veiða seint í gærkvöldi og landað í morgun, annars hafi menn legið við bryggju. Óveðrin sem gengu yfir í síðustu viku hafi þó ekki valdið neinum skemmdum í höfninni.

Bátar á landi í meiri hættu

Í smábátahöfn Snarfara, félags skemmtibátaeigenda, í Reykjavík hugar hver bátaeigandi að sínum bát og eru þeir byrjaðir á því fyrir veðrið í kvöld, að sögn Hafþórs Sigurðssonar, formanns félagsins. Vaktmaður er einnig á staðnum yfir nóttina allan ársins hring.

„Það virðist einhvern veginn vera að þeir bátar sem eru niðri í höfninni séu best varðir. Það eru frekar skútur og annað sem er búið að hífa upp sem er á landi  séu í meiri hættu en þeir sem eru niðri,“ segir Hafþór.

Uppsátur er á svæði Snarfara en þar fóru þrjár skútur á hliðina í óveðri í fyrra.

„Kannski eru menn með varann á sér þegar búið er að vara menn við. Þá er vonandi að menn taki við sér og hugi að hlutunum. Menn tryggja að landfestar séu í lagi og reyna að binda niður þá báta sem eru á landi til að þeir fjúki ekki,“ segir Hafþór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert