Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, varaði við vaxandi valdhyggju og tilburðum yfirvalda til að ná tangarhaldi á þjóðfélaginu í kjölfar hryðjuverkanna í París. Vitnaði hann til fleygra orða um að þeir sem fórnuðu frelsinu fyrir öryggi ættu hvorugt skilið.
Viðraði þingmaðurinn áhyggjur sínar af aðgerðum franskra stjórnvalda til þess að banna svonefnda tor-tækni sem gerir netverjum kleift að viðhalda nafnleysi og opnar nettengingar. Sagði hann þær hugmyndir vondar en dæmigerðar fyrir þær sem jafnan komi upp í kjölfar hryðjuverkaárása eða annarra hörmunga af mannavöldum.
Hryðjuverkaárásir eins og þær sem voru framdar í Bandaríkjunum árið 2001 eða í París á dögunum séu ekki aðeins ógn gagnvart fórnarlömbum þeirra heldur gegn frelsi fólks eins og dæmin sanni.
„Sú ógn birtist í viðbrögðum yfirvalda í skjóli ótta almennings,“ sagði Helgi Hrafn.
Með tölvutækni myndist ekki aðeins tækifæri til góðra verka heldur felist í henni sífellt fleiri tækifæri fyrir yfirvöld til að ná tangarhaldi á þjóðfélaginu.
Njóti valdhyggja eins og sú sem birtist til dæmis í Ungverjalandi, Frakklandi og jafnvel í Bandaríkjunum vaxandi vinsælda þurfi menn ekki aðeins að spyrja um öryggi sitt gagnvart hryðjuverkjum heldur gagnvart valdhyggjunni sjálfri.
Vitnaði Helgi Hrafn því næst í orð sem gjarnan eru eignuð Benjamín Franklín:
„Þau sem fórna frelsinu fyrir öryggi eiga hvorugt skilið og munu glata hvoru tveggja,“ sagði þingmaðurinn.