Vatnselgur hefur myndast á bílastæði verslunar Krónunnar við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði og náði ljósmyndari mbl.is þessum myndum þar fyrr í dag. Að sögn verslunarstjóra er verið að vinna í málinu og hófst sú vinna klukkan sjö í morgun.
„Núna erum við að bíða eftir gröfu til þess að taka klakann. Svo erum við að finna teikningar til þess að sjá hvar niðurföllin eru,“ segir Ágúst Gunnarsson, verslunarstjóri Krónunnar við Reykjavíkurveg, í samtali við mbl.is. Hann segir að vatnið hafi ekki stöðvað viðskiptavini í því að versla enda er hægt að komast að búðinni án þess að ösla vatnið. „En það er í algerum forgangi að laga þetta,“ segir Ágúst.