Alþingi þarf að vera meðvitaðra um hvernig íslensk stjórnvöld greiða atkvæði í afvopnunarmálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ef Íslendingar vilja kalla sig friðelskandi þjóð. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, benti á að Ísland hefði setið hjá þegar ákveðið var að vinna að banni við kjarnavopnum.
Þingmaðurinn rifjaði upp umræðu frá því í síðasta mánuði um það þegar fulltrúi Íslands greiddi atkvæði gegn drögum að alþjóðlegri yfirlýsingu um bann við kjarnorkuvopnum á vettvangi SÞ. Á fundi á allsherjarþingi SÞ í gær hafi verið samþykkt með 138 atkvæðum gegn tólf að setja á laggirnar hóp sem skuli vinna að lagaramma um að banna kjarnorkuvopn.
„Best hefði verið ef Ísland hefði treyst sér til þess að kjósa með þessari tillögu en ég verð að viðurkenna að mér finnst þó betra en ekkert að Ísland var á meðal þeirra ríkja sem sátu hjá,“ sagði Steinunn Þóra.
Þegar atkvæðagreiðslur á vegum SÞ um afvopnunarmál væru skoðaðar kæmi í ljós að Ísland greiddi í flestum tilvikum í takt við meginþorra NATO-ríkja. Spurði þingmaðurinn hvers vegna Ísland hefði til dæmis ekki treyst sér til þess að styðja kjarnorkuvopnafriðlýsingu Indlandshafs.
„Vilji Íslendingar í raun og veru standa við stóru orðin um að vera herlaus og friðelskandi þjóð þarf Alþingi að vera miklu duglegra að fylgjast með því hvernig Ísland greiðir atkvæði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og við hér verðum að taka afstöðu og leggja línurnar um hvernig Ísland á að haga sér,“ sagði Steinunn Þóra.