Brynhildur Pétursdóttir og Bjarkey Gunnarsdóttir, fulltrúar Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna í fjárlaganefnd, gagnrýndu vinnu meirihluta fjárlaganefndar harðlega á kynningarfundi stjórnarandstöðunnar á breytingartillögum hennar við fjárlög 2016.
Í samtali við mbl.is segja þær margt gagnrýnivert í kringum fjárlagafrumvarpið en benda á breytingartillögur meirihlutans sem upphafspunkt í mun stærra máli. Þær sýni skort á stefnu og merki um vinahygli.
„Það kom gríðarlegt magn af breytingartillögum sem mér finnst gefa til kynna að stefnan sé ekki mjög skýr,“ segir Brynhildur. „Fjárlagafrumvarpið var flutt 8. september og þegar það var búið að leggja það fram fóru menn að vinna og vinna og breyta og breyta.“
Bjarkey segir breytingartillögurnar einkennast af gamaldags vinnubrögðum og m.a. snúast um hverjir hafi aðgang að fjárlaganefndarfólki og hvar áhugasvið þeirra liggur. Segir hún gagnrýnivert hversu seint breytingartillögurnar bárust og hvernig þær voru teknar út úr nefnd „á núll einni“.
„Alla síðustu viku var verið að tala um að þær væru að koma en ríkisstjórnin sjálf og meirihlutinn var ekki tilbúinn fyrr en klukkan 11 síðasta laugardagsmorgun og varla það því þetta var að koma glóðvolgt úr prentaranum og við biðum í hálftíma.“
Brynhildur bendir á að ríkisstjórnin hafi raunar lagt fram breytingartillögur sínar fyrir nokkru og að þær hafi síðan farið í gegnum ráðuneytin en segir meirihluta fjárlaganefndar hinsvegar hafa sett fram óvenjumikið af breytingartillögum.
„Við erum að fara í umræðuna núna á eftir og höfum ekki einu sinni náð að spyrja að því hvernig meirihlutinn komst að ákveðnum niðurstöðum. Það er þá umræða sem við þurfum að taka inni í þingsal,“ segir Brynhildur.
Brynhildur furðar sig einnig á því að stórar breytingartillögur sem snerta ýmis stefnumótandi mál hafi ekki verið hluti af upprunalega frumvarpinu og Bjarkey tekur undir.
„Það er greinilega verið að togast á og maður hefur það á tilfinningunni að kaupin á Eyrinni séu að gerast. Það er verið að möndla á milli stjórnarflokkanna. Það gerist sjálfsagt í öllum ríkisstjórnum en þetta er óvenjumikið núna,“ segir Bjarkey sem telur rökstuðningi við breytingartillögur mjög ábótavant.
„Núna eru að berast miklar tillögur frá þessari Norðvesturnefnd sem við höfum aldrei séð. Það hafa ekki verið færð nein rök fyrir þeim og þó það sé enginn að segja að verkefnin geti ekki verið ágæt þá er þetta svo „hipsumhaps“. Enginn færir rök fyrir ákveðinni stefnu heldur er bara lítið hér og mikið þar. Það er mjög gagnrýnivert því þetta eru stórar tölur.“
Brynhildur segist hafa áhyggjur af því að ekki sé gætt jafnræðis við gerð fjárlagafrumvarpsins. Þegar svokallaðir safnliðir voru færðir til ráðuneytanna hafi félagasamtök sótt um fjármagn þangað og um það hafi gilt stjórnsýslulög þar sem umsóknir þeirra fengu ákveðna málsmeðferð. Bjarkey segir ásakanir um vinahygli hafa verið ástæðuna fyrir því að slíkar ákvarðanir voru færðar frá fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili og Brynhildur tekur undir.
„Þetta var tekið úr fjárlaganefndinni einmitt af því að það átti ekki að skipta máli hvern þú þekktir en núna erum við að sjá þessa liði koma aftur inn. Fjárlaganefnd er að taka ákvarðanir um að úthluta til hinna og þessa félagasamtaka en ekki allra,“ segir hún og bætir við að þær ákvarðanir virðist tilviljunarkenndar. Hún undirstrikar að þær minni á vinargreiða með því að taka um öxl blaðamanns með leikrænum tilþrifum.
„Ég er búin að redda þremur milljónum kallinn minn," segir hún lágri röddu áður en hún skiptir aftur í sína eigin, án þess að draga úr þunganum. „Þetta er þessi pólitík.“