„Hræðilega aumkunarvert að hlusta á“

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Skjáskot af Alþingi.is

Fyrsta verk síðustu ríkisstjórnar vinstriflokkanna var „að skerða með afdrifaríkum hætti kjör flestra öryrkja og lífeyrisþega.“ Þetta sagði Byrnjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í dag og bætti við að eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar hefði verið að draga til baka allar þær skerðingar sem vinstristjórnin hefði komið á.

Tilefnið var ræða Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, þar sem hann bar saman framgöngu núverandi ríkisstjórnar við verk þeirrar síðustu. Þar sagði hann að launavísitalan hefði hækkað meira en hækkanir til öryrkja og lífeyrisþega bæði á þessu og síðasta ári. Til samanburðar hefðu verið gerðir kjarasamningar 2011 með sérstakri hækkun lægstu launa og í kjölfarið hafi öryrkjar og lífeyrisþegar fengið hliðstæðar hækkanir.

„Það er algerlega ósambærilegt við það sem núverandi ríkistjórn ætlar að gera og meirihluti hennar, að hafa af mönnum afturvirka leiðréttingu vegna ársins í ár og taka meðalþróun laun en ekki hækkun lægstu launa. Þannig að það haft af öryrkjum og ellilífeyrisþegum á báða bóga með þessari framkvæmd ríkisstjórnarinnar. Það bara liggur fyrir,“ sagði Steingrímur.

„Þetta er alveg hræðilega aumkunarvert að hlusta á,“ sagði Brynjar um ræðu Steingríms og ítrekaði að skerðingar fyrri ríkisstjórnar hefðu ekki verið teknar til baka fyrr en 2013 af núverandi ríkisstjórn. Búið væri að hækka bætur til samræmis við meðalhækkun launa og að auki hefðu bótaþegar fengið 3% hækkun í byrjun janúar sem almennir launamenn hefðu ekki fengið. Spurður úr sal hvernig fólk ætti að lifa af því spurði Brynjar á móti á hverju fólk hafi lifað á síðasta kjörtímabili.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka