Vilja ekki tala fram á nótt

Þingmenn úr röðum stjórnarandstæðinga kvöddu sér hljóðs við upphaf þingfundar á Alþingi í dag og gagnrýndu harðlega að ekki stæði aðeins til funda fram á kvöld heldur einnig fram yfir miðnætti ef þörf væri á. Töldu þeir að í mesta lagi ætti að funda til miðnættis. Eitt mál er á dagskrá Alþingis í dag, framhald annarar umræðu um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Farð var fram á atkvæðagreiðslu um tillögu þingforseta um næturfund og var hún samþykkt.

Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að taka of langan tíma í fjárlagavinnuna og Katrín Júlíusdóttir, varaformaður flokksins, kallaði eftir því að frekar væri byrjað fyrr á morganna en draga umræðuna fram á nótt. Þingmenn Framsóknarflokksins fögnuðu mögulegum næturfundi ef á þyrfti að halda og sögðu ekkert annað að gera að bretta upp hendurnar og klára þá vinnu sem fyrir höndum væri.

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði ríkisstjórnina ekki geta sakast við aðra en sjálfa sig fyrir drátt í málinu og Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sakaði forystu fjárlaganefndar um slugs. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar, sagði ástæðuna fyrir töfunum vera málþóf stjórnarandstöðunnar meðal annars um þingsályktun um niðurlagningu Þróunarsamvinnustofnunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert