Til þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd og eiga rétt á hæli að lögum og samkvæmt alþjóðasáttmálum þarf fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu.
Alls voru 27 einstaklingar fluttir af landi brott í morgun í samstarfi ríkislögreglustjóra og Frontex Landamærastofnun Evrópu. Þar af voru fimm fjölskyldur, þrjár frá Makedóníu og tvær frá Albaníu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Útlendingastofnun.
„Báðar albönsku fjölskyldurnar höfðu ákveðið að una ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á hæli og höfðu dregið til baka kærur sínar til kærunefndar útlendingamála. Fjölskyldurnar óskuðu í kjölfarið eftir flutningi til heimalands.
Til þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd og eiga rétt á hæli að lögum og samkvæmt alþjóðasáttmálum þarf fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu. Þetta leiðir bæði af Flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum sem sett eru á grundvelli hans. Efnahagslegar aðstæður fela ekki í sér aðsteðjandi hættu, um það eru alþjóðasáttmálar og lög skýr. Því geta slíkar aðstæður ekki verið grundvöllur verndar.
Við meðferð hælisumsókna er hvert mál þó rannsakað sérstaklega, bæði varðandi persónulegar aðstæður viðkomandi heima fyrir og almennar aðstæður þar.Nánar er hægt að lesa um flóttamannahugtakið og aðstæður í Albaníu hér,“ segir í tilkynningunni.
mbl.is óskaði eftir viðtali við Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, án árangurs.