Heilsufar yngri þingmanna var Össuri Skarphéðinssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, áhyggjuefni þegar rætt var um að framlengja þingfund fram á nótt, annan daginn í röð. Sagði hann mjög hafa verið af þeim dregið í gær.
Umræður um fjárlög ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár stóðu fram á nótt í gær. Við upphaf þingfundar í morgun gerðu þingflokksformenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna athugasemd við það ef framlengja ætti fundinn fram yfir miðnætti aftur í kvöld og óskuðu eftir atkvæðagreiðslu um það.
Einar Kr. Guðfinnsson, forseti Alþingis, sagðist ekki treysta sér til að halda sér við það að þingfundur standi ekki lengur en til miðnættis.
Össur sagði þá hann tæki undir með forseta að sumar ræður væru betur fluttar á nóttunni en á daginn. Þá væru margir sem líkaði betur að vera annars staðar en heima hjá sér á nóttunni en hann væri sjálfur ekki einn af þeim eins og allir vissu.
Lýsti þingmaðurinn síðan áhyggjum sínum af áhrifum næturfunda á heilsu yngri þingmanna. Það hafi vakið athygli hans að þeir þingmenn sem hefðu setið lengur á þingi hefðu haft úthald til að sitja lengur á fundi.
„Hins vegar sá ég það á ýmsum yngri mönnum sem veikburða sýndu tilburði til að taka þátt í umræðunni að það var mjög af þeim dregið og ég er ekkert að horfa sérstaklega á fyrrverandi formann Lögmannafélagsins eða formann þingflokks framsóknarmanna,“ sagði Össur og vísaði þar til Brynjars Níelssonar og Ásmundar Einars Daðasonar.
Sagðist hann ekki ætla að mótmæla því að forseti héldi fundir áfram langt fram eftir nóttu nema hugsanlega með tilliti til heilsufars yngri þingmanna.
Samþykkt var með þrjátíu atkvæðum gegn sex að heimila að halda þingfundi áfram fram á nótt.