„Óvægin“ og „röng“ umfjöllun

Kristrún Elsa Harðardóttir
Kristrún Elsa Harðardóttir Facebook

Kristrún Elsa Harðardóttir, héraðsdómslögmaður hjá Land lögmenn og eigandi íslensku skjalagerðarinnar, gagnrýnir umfjöllun Kvennablaðsins um flutning albanskrar fjölskyldu frá landinu í nótt á Facebook-síðu sinni. Segir hún umfjöllunina óvægna, ófagmannlega og beinlínis ranga.

Það að setja að Útlendingastofnun sé að „fremja myrkraverk“ og að lögreglan sé „vond“ er algerlega fáránlegt að mati Kristrúnar Elsu.

„Það fólk sem þar starfar er að fara að lögum og reglum og gera sitt besta. Sjálf þekki ég persónulega þann lögreglumann sem mest á mæðir í meðfylgjandi myndbandi. Ég hef starfað með honum í ófá skipti og veit að hann er ljúfmenni sem gerir allt sem í hans valdi stendur til að gera flutning hælisleitenda til síns heima sem átakalaustastan,“ skrifar Kristrún Elsa.

Fjöldinn allur af fölsuðum gögnum

Kristrún Elsa hefur áður starfað sem lögfræðingur hjá Útlendingastofnun við vinnslu hælismála og nú sem talsmaður hælisleitandi sem sjálfstætt starfandi lögmaður.

„Það gerðist fyrst árið 2013 að albanskir hælisleitendur fóru að streyma til landsins og sækja um hæli. Í Albaníu er ekki stríð. Þar er öll almenn heilbrigðisþjónusta í lagi og lögregla sem hefur tök á að vernda sína ríkisborgara verði þeir fyrir aðkasti eða ofsóknum. Albanskir ríkisborgarar falla því ekki innan hugtaksins „flóttamaður“ nema mál þeirra sé þannig vaxið að þeir sæti ofsóknum í heimaríki af völdum yfirvalda.

Flestir Albanir sækja um hæli á grundvelli þess að fjölskyldan þeirra sé andlag blóðhefndar eða svokallaðs „Kanun.“ Margir umsækjendur hafa nákvæmlega sömu sögu að segja sem inniheldur sömu persónur, þó þeir séu algerlega óskyldir. Einnig hafa verið lögð fram fjöldinn allur af fölsuðum gögnum í þessum málum eða eins og oftast er, engin gögn,“ skrifar Kristrún Elsa.

Í Sýrlandi ríki aftur á móti stríðsástand þar sem fólki er ekki vært heima hjá sér. „Það er búið að sprengja húsin þeirra í loft upp og drepa fjölskylduna þeirra. Það eru flóttamenn sem þaðan koma í skilningi íslenskra og alþjóðlegra laga og sjálfsagt og eðlilegt að það fólk fái hér vernd, sem það þarf svo sannarlega á að halda. Stór hluti allra hælisumsókna í Evrópu um þessar mundir koma frá ríkisborgurum Albaníu, Bosníu, Kosovo o.fl.

Þessar umsóknir eru að hægja á ferlinu í mörgum löndum sem ráða ekki við þennan stríða straum fólks sem ekki telst flóttamenn, en þó þarf að fara með í gegnum réttláta málsmeðferð og skoða hvert og eitt mál. Á meðan bíða hinir raunverulega flóttamenn eftir afgreiðslu, oft við slakan kost,“ skrifar Kristrún Elsa.

Bandaríkjamönnum yrði veitt hæli í bunkum

„Það að segja Útlendingastofnun „fremja myrkraverk“ og lögregluna „vonda“ er algerlega fáránlegt. Það fólk sem þar starfar er að fara að lögum og reglum og gera sitt besta. Sjálf þekki ég persónulega þann lögreglumann sem mest á mæðir í meðfylgjandi myndbandi. Ég hef starfað með honum í ófá skipti og veit að hann er ljúfmenni sem gerir allt sem í hans valdi stendur til að gera flutning hælisleitenda til síns heima sem átakalaustastan.

Efnahagslegir „flóttamenn“ falla ekki undir flóttamannahugtakið, hvorki í alþjóðlegum né íslenskum skilningi. Ef fólk vill sjá breytingu á opinberri stefnumótun um innflytjendur og flóttamenn þarf ríkisstjórnin að stíga þar inn og setja fram stjórnvarfrumvarp til breytinga á útlendingalögunum sem víkkar út þann ramma sem settur er utan um þá sem geta fengið hér vernd. Þið sem það viljið getið því beint spjótum ykkar að þeim ráðamönnum sem stjórna hinni opinberu stefnumörkun í stað þeirra sem þurfa að framfylgja lögunum.

Albanir, eins og aðrir, þurfa að fylgja settum lögum og reglum um dvalarleyfi. Eitthvað myndi heyrast ef bandaríkjamönnum yrði veitt hér hæli í bunkum vegna slakrar heilbrigðisþjónustu í heimalandi. Ég minni fólk á að kynna sér staðreyndir áður en það fer að tjá sig í fjölmiðlum eða væna opinberar stofnanir eða einstaklinga um illmennsku,“ skrifar Kristrún Elsa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert