„Ráðherra þrætir eins og sprúttsali“

Deilt var um hvort sjúklingakvóti væri á viss ný lyf …
Deilt var um hvort sjúklingakvóti væri á viss ný lyf á Íslandi. mbl.is

Heilbrigðisráðherra var sakaður um að hafa gefið fyrirmæli um sjúklingakvóta á lífsnauðsynleg lyf á Alþingi í morgun. Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði ráðherrann þræta eins og sprúttsala sem hafi verið staðinn að verki þegar hann neitaði því að sú væri raunin.

Vísaði Ólína til bréfs sem formaður lyfjanefndar Landspítalans skrifaði ráðherranum í apríl þar sem athygli var vakin á nýju verklagi samkvæmt fyrirmælum ráðherrans til lyfjagreiðslunefndar um að greiðsluþátttökuheimild fyrir nokkur ný lyf sé bundin við ákveðinn fjölda sjúklinga. Allar heimildir séu nú fullnýttar fyrir nokkur gigtar-, augn- og krabbameinslyf. Nýir sjúklingar sem þurfi á lyfjunum að halda fái þau ekki. Umboðsmaður Alþingis hafi meðal annars gert athugasemd við þetta.

Spurði þingmaðurinn hvort og hvernig ráðherrann ætlaði að breyta verklagi sem hann hafi innleitt um greiðsluþátttökuheimildir lyfjagreiðslunefndar og afnema það sem hún kallaði sjúklingakvóta.

Engir kvótar á lyfjum

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sagði að formenn lyfjanefndar spítalans og lyfjagreiðslunefndar hafi mætt á fund velferðarnefndar Alþingis í morgun og skýrt út regluverkið. Nefndin hafi verið upplýst um að engir kvótar væru á notkun lyfja heldur unnið væri á grundvelli áætlana sem miðuðu að því að vinna eftir þeim fjárheimildum sem Alþingi setti.

Ráðherrum væri óheimilt að greiða gjald úr ríkissjóði án heimilda í fjárlögum eða fjáraukalögum. Hann hygðist vinna samkvæmt þeim ákveðnum. Taldi hann enga ástæðu til að brjóta upp lögbundin ferli og regluverkið sem um það gildi hafi síðast verið endurskoðað árið 2012.

„Það er nú ekki gott þegar hæstvirtur ráðherra þrætir eins og sprúttsali sem staðinn er að verki. Það er sjúklingakvóti við lýði og þær fjöldatakmarkanir sem beitt er við lyfjaniðurgreiðslu velta á fyrirmælum sem koma frá ráðherranum sjálfum,“ voru viðbrögð Ólínu við svari ráðherrans.

Ollu þessi ummæli hennar töluverðum úlfaþyt í þingsal og kölluðu einhverjir þingmenn stjórnarliðsins fram í fyrir fyrirspyrjandanum. Ólína var hins vegar ómyrk í máli og sagði það óásættanlegt í siðuðu samfélagi að neita sjúklingi um bestu lyfjameðferð og beita fjöldatakmörkunum því um væri að ræða lífsbjargandi þjónustu.

Ráðherrann fullyrti að verslun með sprútt heyrði ekki undir það regluverk sem hann færi eftir. Ítrekaði hann það sem formenn lyfjanefndanna hefðu sagt á fundi velferðarnefndar að engir kvótar væru í íslenski heilbrigðisþjónustu. Þá væri það bundið í lög að íhlutun ráðherra væri engin í þessum málum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert