Kjöt búið til á tilraunastofum og Woody Allen-myndir voru til umræðu í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. Varaþingmaður Pírata spurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út í væntanlega innreið matvæla sem ræktuð eru á tilraunastofum á allra næstu árum.
Björn Leví Gunnarsson, varaþingmaður Pírata, benti á að vísindamenn áætluðu að kjöt sem ræktað er á tilraunastofum geti orðið samkeppnishæft við núverandi framleiðslu á næstu tíu árum. Afleiðing væri sú að Íslendingar yrðu ekki að veiða fisk eða rækta dýr, aðeins þyrfti að rækta vöðva. Vildi hann vita hvaða áhrif þetta gæti haft á efnahag landsins
Í svari Sigurðar Inga kom fram að ekki væri uppi nein vinna við að skoða þessa framtíðarsýn þingsmannsins og að honum hugnaðist hún ekki. Sagðist ráðherrann muna eftir að hafa séð álíka framtíðarsýn í mynd eftir Woody Allen þar sem fólk tók eina töflu sem matarforða þess dags.
„Það getur vel verið að það sé einhver framtíðarsýn inn í langa framtíð en ég vona nú satt best að segja að það sé einhver tími í það að við fáum alla okkar næringu sem framleidd er á tilraunastofum,“ sagði Sigurður Ingi.
Það viðhorf virðist ríkjandi um allan heim að matvæli sem fólk fær séu heilnæm. Sagðist ráðherrann trúa því að fólki horfi frekar til veiða á villtum fiski til að fá örugg prótín og fjölskyldubúastemmingar á Íslandi við að rækta og búa til heilnæm matvæli.
Björn Leví sagði að þessar tækniframfarir hefðu gríðarleg heilnæm áhrif í för með sér því ekki þyrfti að dæla miklu magni sýklalyfja í dýr, jafnvel þó að það væri ekki mikið gert á Íslandi fyrir. Gróðrarstíur flensunnar, stórar verksmiðjur, hverfi. Ítrekaði hann að ekki væri um pillur eða duft að ræða heldur vöðva sem væri nákvæmlega eins og af dýri.
Sigurður Ingi sagði hina almennu skoðun að menn vildu vita um uppruna vöru sem þeir fái. Hvað varðaði sjúkdóma eins og flensuna sagðist ráðherrann ekki telja að þeir muni hverfa. Bakteríur og veirur muni alltaf hafa sínar leiðir.
„Það mun ekki breytast þó svo að við förum að rækta matinn á tilraunastofum því dýrin verða vonandi áfram til í heiminum,“ sagði ráðherrann glottandi.