„Auðvitað sker það í hjartað að sjá þessa birtingamynd löggjafans, sem við sáum í þessari viku,“ sagði Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, í umræðu um hælisleitendur á Alþingi. Vísaði hún í brottflutning hóps albanskra hælisleitenda í fyrrinótt.
Hún sagði ennfremur ljóst að það væri erfitt að breyta því sem búið væri að gera, en taldi alla þingmenn hafa upplifað þessa atburði með svipuðum hætti og hún.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Unni hvort hún teldi að gildandi lög og reglur ættu að tryggja réttindi langveikra barna sem komi hingað til lands. Hann spurði hann ennfremur, hvort hún teldi það miður að ekki hafi verið látið á það reyna á það með áfrýjunum, eða með því að nota gildandi lagaúrræði. „Eða telur formaður allsherjarnefndar að lögin tryggi ekki réttindi barna í þessari stöðu?“
Helgi spurði ennfremur hvort hægt sé að breyta lögunum til að tryggja að svona atvik endurtaki sig ekki. „Hvernig getum við bætt fyrir það sem gerst hefur gagnvart þolendunum, börnunum sem um ræðir, og hvernig getum við tryggt það að þetta komi ekki aftur fyrir aftur? Vegna þess að ég held að við öll - þvert á flokka og þjóðfélagshópa - séum sammála um það að við héldum að svona gerðum við ekki,“ sagði Helgi.
Unnur segir að það hefði þurft að láta reyna á túlkun löggjafarinnar hjá úrskurðarnefnd í málefnum hælisleitenda, sem þingmenn settu á fót á sínum tíma. „Við færðum valdið frá ráðherra yfir í sérstaka úrskurðarnefnd sem auðvitað þarf að fá tíma til að túlka löggjöfina og verður að láta reyna á ákveðin tilfelli,“ sagði Unnur. Hún bætti við að hún gæti ekki tjáð sig um málefni albönsku flóttamannanna þar sem hún hefði ekki gögn þeirra undir höndum.
Unnur sagði hins vegar mikilvægt að fá fram frumvarp innanríkisráðherra um breytingar á útlendingalögum, sem þverpólitísk þingnefnd hafi skilað af sér til ráðherra. „Sú löggjöf á að tryggja það að það verði fleiri leiðir inn í landið okkar. Ég trúi á opið og lýðræðislegt samfélag. Ég vil gera fólki það auðveldara að koma hingað og setjast hér að. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir Ísland að fá fleiri vinnandi hendur; fá fjölbreyttari einstaklinga sem geta lagt sitt af mörkum til að gera landið okkar enn betra,“ sagði Unnur og bætti við að hún telji að flestir Íslendingar séu sammála þessum sjónarmiðum.