Póstur sem átti að berast íbúum í hluta póstnúmers 104 í lok september og byrjun október var borinn út til þeirra í vikunni ásamt bréfi frá Póstinum þar sem beðist var afsökunar á töfunum. Bréfberi sem starfaði aðeins í nokkra daga fyrir Póstinn bar póstinn ekki út en aðili honum tengdur kom póstinum til skila nýlega.
Í bréfinu sem forstöðumaður þjónustumála Póstsins sendi íbúum í hluta Sólheima, Ljósheima, Skeiðarvogs og Langholtsvegar segir að bréfberinn hafi brugðist starfsskyldum sínum en pósturinn hafi fengist óskemmdur frá honum fyrir stuttu. Umræddur starfsmaður starfi ekki lengur hjá fyrirtækinu.
Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins, segir að aðili sem er tengdur fyrrverandi bréfberanum hafi komið póstinum til skila. Sjálfur hafi bréfberinn staldrað stutt við hjá fyrirtækinu, aðeins nokkra daga. Ekki hafi verið um mikinn póst að ræða. Að öðru leyti segist hann ekki geta tjáð sig um einstök mál starfsmanna.
Þetta er fjórða tilfellið á þessu ári þar sem fréttir berast um að bréfberar Póstsins hafi orðið uppvísir að því að bera ekki út póst. Í febrúar var greint frá tveimur málum þar sem íbúar í Hlíðahverfi, Grafarvogi og Mosfellsbæ höfðu ekki fengið póst á réttum tíma af þessum sökum.
Í júní fundust þrír pokar með póstsendingum sem dagsettar voru í maí og júní í Gufuneskirkjugarði. Pósturinn kærði málið til lögreglu þar sem pósturinn var ónýtur að hluta til.
Brynjar segir mál af þessu toga ekki ný af nálinni en fyrirtækið reyni að koma í veg fyrir það eins og það geti. Þau séu ekki algeng. Pósturinn hafi alltaf sent bréf til íbúa þegar slík mál koma upp til að láta þá vita og biðjast afsökunar.