Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ætlar ekki að bjóða sig fram til alþingis í næstu kosningum. Hann segist ekki vera að íhuga formannsframboð í Samfylkingunni. „Einfaldlega vegna þess að ég held að mörg brýnustu verkefnin í íslenskri pólitík séu í borginni.“
Þetta kemur m.a. fram í ítarlegu viðtali við Dag í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Í viðtalinu er Dagur m.a. spurður út í sögulegan ósigur flokksins í síðustu þingkosningum og að hann virðist enn vera að tapa fylgi ef marka megi skoðanakannanir.
– Hvernig skýrir þú þetta? Á flokkurinn ekki erindi?
„Ég ætla ekki að gefa mig út fyrir að vera einhver stjórnmálaskýrandi í þessu sambandi. Það er alveg rétt, þetta var mikill skellur í þingkosningunum, ég held að við höfum endað í kringum 13%. Ári síðar náðum við hins vegar góðum árangri í sveitarstjórnarkosningum, ekki bara hér í Reykjavík, þar sem við náðum 32% fylgi, heldur líka í ýmsum sveitarfélögum hringinn í kringum landið. Ég held að það hafi verið afrakstur skipulegrar vinnu, þar sem við settum brýn mál á oddinn út frá jafnaðarstefnunni og kynntum lausnir sem við höfum trú á, og án allrar tilgerðar. Það reyndist eiga hljómgrunn og ég held að stjórnmálaflokkar og framboð flæki oft það sem leggja á ríkasta áherslu á. Það sem fólk kallar eftir eru skýr svör um mikilvægustu málin, áherslur og forgangsröðun til framtíðar. Þegar fylgi Samfylkingarinnar er svona lágt, þrátt fyrir mikinn stuðning Íslendinga við jafnaðarstefnuna almennt og þær áherslur og gildi sem liggja henni til grundvallar, þá er það hvatning um að við þurfum að vinna betur og skilgreina forgangsmálin með skýrari hætti.“
– Árni Páll Árnason hefur átt undir högg að sækja á formannsstóli og hefur naumt umboð. Er hann rétti maðurinn til að leiða flokkinn?
„Það er ekki mitt að segja. Hann óskaði eftir tækifæri til þess að tefla fram skýrri sýn fyrir Samfylkinguna í aðdraganda næstu kosninga og hann hefur núna tækifæri til þess ásamt öðrum í forystu flokksins. Vandi flokksins er ekki einkamál formannsins frekar en annarra. Þennan tíma þarf að nýta vel og síðan þarf flokkurinn að svara því í heild hvernig hann vill skipa sínu liði fyrir kosningarnar. Árna er ekki fisjað saman og það býr mikil reynsla og þekking í þingflokknum. Að mínu mati er lykillinn að því að ná góðum árangri í næstu kosningum að sækja í þennan gamla grunn sem Samfylkingin var stofnuð á; að vera breytingaafl, jákvæður og uppbyggilegur farvegur fyrir brýnustu breytingarnar sem þarf að gera í samfélaginu á grundvelli jafnaðarstefnunnar. Í því verkefni eiga allar raddir heima og lykilatriði að flokkurinn sé opinn og áhugaverður fyrir nýjar raddir og nýtt fólk.“
– Gætir þú ekki verið betur til þess fallinn að leiða þá vinnu en Árni Páll? Ertu að íhuga formannsframboð?
„Nei, það er ég ekki að gera. Einfaldlega vegna þess að ég held að mörg brýnustu verkefnin í íslenskri pólitík séu í borginni. Þá er ég að tala um húsnæðismál, jöfnuð, lýðheilsu og fjölmörg fleiri mál. Þarna verða því aðrir að koma til skjalanna.“
– Mælir eitthvað gegn því að þú bjóðir þig fram til formennsku í Samfylkingunni þótt þú sinnir áfram borgarmálum?
„Já, í mínum huga þarf formaður stjórnmálaflokks að vera í landsmálum. Ekkert endilega á Alþingi en í landsmálum. Að mínu mati hefur málum of oft verið miðlað á kostnað Reykjavíkur og höfuðborgarsvæðisins í íslenskri pólitík almennt. Við höfum á köflum í sögu landsins verið of upptekin af því að reyna að hamla vexti borgarinnar og litið á það sem ógnun við aðra hluta landsins ef vel gengur í Reykjavík. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að það séu hagsmunir landsins alls að Reykjavík vaxi og dafni og dragi að sér fjárfestingu og fólk. Ég er líka eindregið þeirrar skoðunar að stefna okkar í Samfylkingunni í borginni, stefna meirihlutans og áætlanir um framtíðina séu til þess fallin að ná því markmiði. Það er mitt stóra verkefni í pólitík og ég held ég væri að gefa afslátt af því ef ég færi að blanda mér í landsmálin. Ég er borgarstjóri í Reykjavík og reyni að sinna því af trúmennsku fyrir alla borgarbúa og mér veitir ekkert af því að halda fullri athygli í því verkefni.“
– Þú útilokar þá að bjóða þig fram til Alþingis í kosningunum 2017?
„Já.“
Dagur var einnig spurður um fjármál borgarinnar í viðtalinu.
– Fram hefur komið að allt stefni í 13,4 milljarða halla á rekstri A-hluta borgarinnar á þessu ári. Þetta er langt frá spám og hljóta að vera vonbrigði.
„Jú, maður vill auðvitað ekki hafa halla. Í grunninn er ég hins vegar mjög bjartsýnn fyrir hönd borgarinnar. Hallinn á þessu ári skýrist að miklu leyti af töluverðum launahækkunum sem færa má rök fyrir að hafi verið tímabærar. Það sem veldur vonbrigðunum er að tekjurnar fylgdu ekki í kjölfarið. Gamla þumalputtareglan er sú að ef launabreytingar hjá borginni eru sambærilegar við atvinnulífið þá skilar útsvarið því sem bætt er í launaumslög borgarstarfsmanna. Það gerðist ekki núna og við því þarf að bregðast. Það höfum við gert áður í tilviki borgarsjóðs og Orkuveitunnar og erum að setja upp áætlun um það hvernig við ætlum að loka þessu gati. Þótt þessar tölur virki háar eru þær að stórum hluta vegna lífeyrisskuldbindinga sem eru gjaldfærðar á þessu ári en koma til greiðslu á áratugum. Hagræðingin á næsta ári er vel viðráðanleg.
En af hverju er ég bjartsýnn? Staðreyndin er sú að Reykjavík dregur vagninn þegar kemur að hagvexti á Íslandi. Við erum að beita okkur fyrir því að auka fjölbreytni í atvinnulífinu, og þar erum við að sjá árangur býsna hratt vil ég segja á grundvelli atvinnustefnu sem við mótuðum eftir hrun, þegar við áttuðum okkur á því að stórir bankar myndu hvorki bera uppi lífskjör né vöxt og áttu auðvitað aldrei að gera það. Við erum að horfa á öfluga ferðaþjónustu sem er að fjárfesta. Við erum að horfa á þekkingarhagkerfið sem er að eflast úti í Vatnsmýri í samstarfi við háskólana. Við erum að fá inn öflug fyrirtæki eins og Alvogen og CCP í vísindagarðana þar. Við erum að sjá skapandi fyrirtæki eins og Reykjavík Studios, sem Baltasar Kormákur fer fyrir, vaxa og dafna. Við eigum einmitt í viðræðum við það fyrirtæki um þessar mundir um að setja niður kvikmyndaver í Gufunesi. Markmiðið er að draga hingað heim kvikmyndaverkefni sem annars færu til útlanda.
Við erum að sjá sjávarútveginn í Reykjavík eflast eftir að við ákváðum að gamla höfnin í Reykjavík ætti ekki að vera íbúðir og hótel heldur hafnsækin starfsemi og það sem færi vel með henni. Það fengi að þróast. Þetta er bæði hefðbundinn sjávarútvegur, með uppbyggingu HB Granda, en líka nýsköpun eins og í tengslum við sjávarklasann. Það má heldur ekki gleyma því að við erum að sjá menningu og afþreyingu í bland. Grandinn og gamla höfnin eru að verða eitt áhugaverðasta svæðið í því tilliti í borginni. Loks má nefna græna hagkerfið sem er að þróast hratt með fyrirtækjum sem leggja áherslu á umhverfislausnir, bæði í samstarfi við sjávarútveginn og annan iðnað.
Við viljum að þetta atvinnulíf hafi allt vaxtarskilyrði í borginni, þannig að við förum frá einhæfu atvinnulífi sem horfir á eina til þrjár stoðir yfir í mun meiri fjölbreytni. Þannig bjóðum við upp á samkeppnishæf lífskjör miðað við umheiminn. Byggðastofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands settu fram áhugaverða skýrslu á dögunum, þar sem sést að framleiðni á hvern einstakling á höfuðborgarsvæðinu er langtum meiri en á landsbyggðinni og bilið er að breikka.“
– Þegar borgarbúar heyra talað um hallarekstur hugsa þeir óhjákvæmilega að álögur verði hækkaðar, með beinum eða óbeinum hætti. Er hægt að senda þau skilboð út að það verði ekki gert?
„Já, við settum það sem eitt af prinsippunum í þeirri hagræðingarvinnu sem framundan er að Reykjavík verði áfram hagstæðasti búsetukosturinn fyrir fjölskyldur og barnafólk. Það mun ekki breytast. Það gleymist oft að eitt af því sem við gerðum á síðasta kjörtímabili var að lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði. Þeir eru hlutfallslega þeir lægstu á landsvísu, eða 0,2%. Við erum líka með lægri gjaldskrár en önnur sveitarfélög sem undirstrikar vilja okkar til að dreifa byrðinni þannig að hún verði léttust fyrir þá sem eiga erfiðast með að láta enda ná saman, það er barnafólk. Sérstaklega þeir sem eru með mörg börn. Þegar kjörin eru annars vegar vega húsnæðismálin líka gríðarlega þungt. Þetta fyrsta ár kjörtímabilsins hefur mikill tími farið í að vinna með samstarfsaðilum, stúdentum, Búseta og byggingarfélögum, að því að undirbúa húsnæðisáætlunina sem við höfum boðað. Markmið hennar er að tryggja að til verði að minnsta kosti 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúðir.“
– Á hvað löngum tíma?
„Við sögðum í fyrra að þessi verkefni færu í gang á næstu þremur til fimm árum og sum þeirra eru þegar komin í gang. Við vitum að þetta tekur tíma en viljum að það gerist sem allra fyrst.“
– Að allt öðru. Ísraelsmálið var meirihlutanum þungt í skauti. Nú er komin smá fjarlægð á það mál, hvernig sérðu það í dag?
„Ég hef farið yfir það mál og við blasir að það var alls ekki nógu vel undirbúið af okkar hálfu. Það verður að horfast í augu við það. Ég hef kannað hvernig þessi mál standa í höfuðborgum Norðurlanda og þau eru til skoðunar þar og Evrópusambandið var að gera ákveðna samþykkt um merkingu á vörum frá hernumdu svæðunum. Það virðist því vera heilmikil gerjun hvað þetta varðar í Evrópu. Lærdómurinn af þessu Ísraelsmáli er sá að við stígum engin ný skref fyrr en við erum búin að ráðfæra okkur við systraborgir okkar á Norðurlöndunum og utanríkisráðuneytið hér heima. Ég hef rætt það sérstaklega við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra að sest verði yfir þessi mál áður en nokkur skref verða stigin af okkar hálfu.“
Ítarlegt viðtal er við Dag í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.