Læknafélag Íslands gerir „alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð af því tagi sem birtast í“ frétt Morgunblaðsins í gær þar sem laun heilbrigðisstarfsfólks á Norðurlöndunum eru borin saman. Í greininni undir fyrirsögninni „Launin á Íslandi nú þau hæstu“ er niðurstaðan sú að laun lækna á Íslandi séu umtalsvert hærri en á hinum löndunum á Norðurlöndum. „Þessi niðurstaða er m.a. fengin með því að bera saman heildarlaun lækna á Íslandi og dagvinnulaun lækna í hinum löndunum. Ennfremur er vísað í Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem telur samanburð á heildarlaunum á Íslandi og grunnlaunum á hinum löndunum á Norðurlöndunum þremur gefa skýrari mynd en samanburð á grunnlaunum. Læknafélagið undrast þau orð,“ segir í yfirlýsingu frá Læknafélagi Íslands.
„Eðlilegast er að bera saman dagvinnulaun á Íslandi við dagvinnulaun á hinum löndunum á Norðurlöndum.“
Athugasemd Læknafélagsins í heild:
„Morgunblaðið birtir á blaðsíðu 20 í dag grein undir fyrirsögninni „Launin á Íslandi nú þau hæstu“ ásamt útdrætti á forsíðu blaðsins. Þar er fjallað um laun lækna og hjúkrunarfræðinga á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð og er niðurstaða blaðsins að laun lækna á Íslandi séu umtalsvert hærri en á hinum löndunum á Norðurlöndum. Þessi niðurstaða er m.a. fengin með því að bera saman heildarlaun lækna á Íslandi og dagvinnulaun lækna í hinum löndunum. Ennfremur er vísað í Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem telur samanburð á heildarlaunum á Íslandi og grunnlaunum á hinum löndunum á Norðurlöndum þremur gefa skýrari mynd en samanburð á grunnlaunum. Læknafélagið undrast þau orð.
Á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins má finna yfirlit yfir laun lækna og annarra starfshópa hjá ríkinu. Þar má glöggt sjá að um 65% af heildarlaunum lækna í Læknafélagi Íslands eru skilgreind sem dagvinnulaun að mati ráðuneytisins en afgangurinn er vakta- og yfirvinnugreiðslur. Það er þekkt að hlutfall vakta- og yfirvinnugreiðslna hér á landi er og hefur verið umtalsvert hærra en á hinum löndunum á Norðurlöndum og skýrist það einkum af því að íslenskir læknar taka mun tíðari vaktir en læknar á hinum löndunum á Norðurlöndum, fyrst og fremst vegna skorts á læknum hér á landi. Það gefur því auga leið að samanburður á heildarlaunum á Íslandi og dagvinnulaunum annars staðar gefur aldrei rétta mynd af raunverulegri stöðu. Í raun er verið að bera saman epli og appelsínur.
Læknafélag Íslands gerir alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð af því tagi sem birtast í ofangreindri grein Morgunblaðsins. Eðlilegast er að bera saman dagvinnulaun á Íslandi og dagvinnulaun á hinum löndunum á Norðurlöndum.
Væru dagvinnulaun lækna hér á landi og á hinum löndunum á Norðurlöndum borin saman kæmi í ljós að dagvinnulaun í löndunum eru orðin mun sambærilegri en áður. Það telur Læknafélag Íslands fagnaðarefni og til þess fallið að auka líkur á að íslenskir læknar snúi aftur til Íslands að sérnámi loknu. Sú hefur ekki verið raunin eftir hrun.“