Líf Magneudóttir segist ekki geta svarað fyrir það hvort hún hafi stigið á tær Sóleyjar Tómasdóttur og að það skýri það að Sóley tók sæti hennar sem formanns í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar í byrjun desember. Hafi hún stigið á tær hafi það ekki verið viljandi.
Frétt mbl.is: Innanflokksátök hjálpa ekki
Líf sat fyrir svörum í Sprengisandi, þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í morgun. Sigurjón þráspurði Líf út í breytingarnar í mannréttindaráðinu en hún ítrekaði að Sóley yrði að svara fyrir þær.
„Þú ert í ábyrgðarstöðu fyrir borgara...“ spurði Sigurjón m.a.
„á, já, ég sit í umboði kjósenda, það er rétt,“ svaraði Líf.
Sigurjón: „En finnst þér ekki að kjósendur ykkar eigi rétt á að vita.. hvað fannst þér um þetta? Steigstu á tær Sóleyjar?“
Líf: „Úff, ég get eiginlega bara ekki svarað fyrir það. Ekki viljandi, nei alls ekki. Ég hef verið að sinna minni vinnu og vandað mig, eins og maður á að gera í stjórnmálum. Ég held að það sé bara eðlilegt að hún svari fyrir þetta.“
Sigurjón: „En sérðu eftir formennskunni í mannréttindaráði?“
Líf: „Já, já, það eru mörg skemmtileg verkefni framundan sem ég kem til með að sakna. Ég læt bara til mín taka á öðrum vettvangi. Verð sem sagt formaður borgarmálahóps Vinstri grænna. [...] Ég á eftir að sinna því af alúð og gera það vel.“
Sigurjón rifjaði upp að aðeins einu atkvæði hafi munað á þeim Líf og Sóleyju í prófkjöri flokksins í borginni. „Hefur þetta verið styrkt [samstarf] frá upphafi?“ spurði Sigurjón.
Líf segir að svo hafi ekki verið hvað sig varði. „Ég ákvað að bjóða mig fram í annað sætið og gerði það. Og ég er í öðru sæti og sinni því bara eins og mér ber skylda til að gera. Og hef verið að einbeita mér að vinnunni. En ég meina, pólitíkin er ævintýraleg, það gerist alltaf eitthvað. Stundum vonbrigði, en það sem skiptir mestu máli er að einbeita sér að verkefnunum framundan.“
Hún segir mikilvægt í stjórnmálum að setja allan persónulegan ágreining til hliðar. „Ég held að við þurfum bara að einbeita okkur að því, fyrst að svona er komið, er það ekki?“