Óttarr Proppé, formaður þverpólitískrar þingmannanefndar sem hefur samið frumvarp um ný útlendingalög, segir löggjöfina mjög viðamikla og flókna. Til marks um það er hún 130 blaðsíðna löng og annað eins í greinargerð.
„Það eru talsvert miklar umbætur í þessu frumvarpi sem skipta máli og gera okkur auðveldara að standa undir þessum kröfum um mannúðlega meðferð og um skilvirkni og aðgengi gagnvart þjóðfélaginu,“ segir Óttarr.
Nefndin var skipuð vorið 2014 og ákveðið var að semja nýja löggjöf í stað þess að gera breytingartillögu við þá gömlu frá árinu 2002. Að sögn Óttarrs er sú löggjöf orðin úrelt. „Það er samt ekki þannig að við höfum hent henni alveg í ruslið, heldur er hún ákveðinn grunnur sem heldur sér að mörgu leyti. Við leggjum áherslu á það í nýju löggjöfinni að hlutirnir séu vel skilgreindir. Við unnum þetta með sérfræðingum innanríkisráðuneytisins og í víðtæku samráði við stofnanir, félagasamtök og aðila tengda málaflokknum. Við erum líka að byggja á reynslunni frá síðustu fimmtán til tuttugu árum.“
Hann tekur fram að lögin frá 2002 hafi verið samin í öðru andrúmslofti en núna er uppi. Einnig hafi þau verið samin áður en það myndaðist almennileg reynsla á Íslandi í mörgum af þeim málum sem stjórnvöld hafa glímt við undanfarin ár, sérstaklega hvað hælisleitendur varðar. Einnig hefur mikil þróun orðið í málaflokknum í löndunum í kringum okkur að undanförnu. „Svona málaflokkur þarf að vera í sífelldri skoðun. Hann þróast mjög hratt og það er mikilvægt að löggjöfin breytist í takt við það.“
Aðspurður hvort nýju útlendingalögin myndu koma í veg fyrir samskonar vinnubrögð og þegar albönskum fjölskyldum með langveik börn var vísað úr landi á dögunum segir Óttarr: „Það er erfitt að segja til um það en maður hefði vonað það. Tilgangur nýju laganna er að reyna að tryggja réttindi og skyldur báðum megin, bæði hjá einstaklingunum og íslenska ríkinu,“ segir hann.
„Það er kannski þess vegna sem þetta er svona mikið sjokk núna því maður áttar sig ekki á því hvernig þetta virðist hafa getað gerst. Þetta virðist heldur ekki vera í takt við það hvernig maður hefur upplifað að hlutirnir hafi verið að þróast. Ég held að það sé eitthvað sem margir aðrir eru að reyna að átta sig á."
Ólöf Nordal innanríkisráðherra kynnti frumvarpið á fundi ráðherranefndar fyrir skömmu og vonast til að leggja það fram á næstunni.