9,2 milljarða eignasala Íbúðalánasjóðs

Frá Reyðarfirði. Flestar eignirnar eru á Austurland og Suðurnesjum. Eitt …
Frá Reyðarfirði. Flestar eignirnar eru á Austurland og Suðurnesjum. Eitt eignarsafnið inniheldur 66 íbúðir á Reyðarfirði. mbl.is/Golli

Fasteignamat eignanna 504 sem Íbúðalánasjóður ætlar að selja í fimmtán eignasöfnum á fyrri hluta næsta árs er 9,2 milljarðar. Tilboðsfrestur er til 3. febrúar, en með söluferlinu er horft til þess að selja eignir til leigufélaga. Af íbúðunum 504 eru 381 í leigu. Þetta kom fram á kynningarfundi fyrir söluferlið á Grand hótel í dag.

Hermann Jónasson, forstjóri sjóðsins, fór í upphafi fundar yfir fjölda eignanna og nefndi að frá árinu 2011 hefði sjóðurinn selt eignir fyrir um 40 milljarða sem hann hefði eignast með fullnustuaðgerðum. Sagði hann ofboðslega mikilvægt að koma þessum eignum út og endurfjárfesta, enda hefur ítrekað komið fram að staða sjóðsins sé ekki góð.

Í dag á Íbúðalánasjóður um 1.500 eignir þannig að eignasöfnin núna telja um þriðjung heildareigna sjóðsins. „Það er markmið okkar að selja meirihlutann af þessum eignum á þessu og næsta ári,“ sagði Hermann. Bætti hann því við að meðal annars yrði leigufélagið Klettur sett á sölu á næsta ári, en það er með á fimmta hundrað eignir til sölu.

Samtals eru eignirnar 504 53.019 fermetrar að stærð og er fasteignamat þeirra árið 2016 9.219 milljónir. Samkvæmt útreikningum Íbúðalánasjóðs eru væntar leigutekjur af íbúðunum um 737 milljónir á ári.

Á morgun mun Íbúðalánasjóður setja á vefinn skýrslu sem greinir nákvæmar frá eignasölunni, en tekið var fram á fundinum að margar eignirnar væru í þannig ástandi að gera þyrfti þær upp. Þá mun sjóðurinn opna gagnaherbergi, en greiða þarf 150 þúsund til að fá aðgang að því. Verða þar frekari upplýsingar fyrir væntanlega kaupendur.

Gert er ráð fyrir að kaupsamningar verði undirritaðir ekki seinna en í apríl og að afsal verði gefið út 15. júlí.

Eignasöfnin skiptast upp sem hér segir:

  1. Eskifjörður, Fáskrúðsfjörður og Reyðarfjörður – 27 eignir þar sem meðalstærð er 141 fermetrar.
  2. Reyðarfjörður – 66 eignir, þar af 29 í útleigu þar sem meðalstærð er 92 fermetrar.
  3. Egilsstaðir – 40 eignir, þar af 32 í útleigu og meðalstærð 88 fermetrar.
  4. Norðurland – 21 eign (13 þeirra á Akureyri), þar af 19 í útleigu.
  5. Suðurland – 39 eignir (21 í Árborg), þar af 26 í útleigu og meðalstærð 108 fermetrar.
  6. Njarðvík, Keflavík og Grindavík – 44 eignir (32 í Njarðvík), þar af 36 í útleigu og meðalstærð 111 fermetrar.
  7. Keflavík, Garður, Sandgerði og Grindavík – 47 eignir (22 í Keflavík) og meðalstærð 109 fermetrar.
  8. Ísafjörður og Súðavík – 6 eignir og þar af 2 í útleigu.
  9. Snæfellsnes – 35 eignir, þar af 22 í útleigu og meðalstærð 112 fermetrar.
  10. Keflavík – 31 eign, þar af 18 í útleigu og 98 fermetra meðalstærð.
  11. Sandgerði, Keflavík, Njarðvík, Vogar og Grindavík – 33 eignir, þar af 29 í útleigu og 107 fermetra meðalstærð.
  12. Akranes og Borgarnes – 27 eignir, þar af 14 í útleigu og meðalstærð 97 fermetrar.
  13. Hafnarfjörður – 25 eignir, þar af 22 í útleigu og meðalstærð 99 fermetrar.
  14. Reykjavík – 38 eignir, þar af 37 í útleigu og meðalstærð 104 fermetrar.
  15. Kraginn – 25 eignir (16 í Kópavogi), þar af 21 í útleigu og meðalstærð 111 fermetrar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka