Fjölgun öryrkja raunverulegt vandamál

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Eva Björk

Fjármálaráðherra segir að fjölgun öryrkja sé orðið sérstakt vandamál á Íslandi. Hann bendir ennfremur á, að Íslandi séu of margir ungir karlar að festast utan vinnumarkaðar og hafa smám saman endað á örorkubótum. „Okkur er að mistakast að styðja þá til nýrrar virkni,“ sagði hann og bætti við að hvatar skipti máli.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna út í bætur almannatrygginga og lægstu laun. Hann vísaði í ummæli sem Bjarni lét falla í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær: „Það er líka til fólk sem er í fullu starfi, vaknar snemma á morgnana og vinnur allan daginn við að hafa í sig og á og sitt fólk. Það hefur ekki meira á milli handanna en þeir sem treysta á bæturnar.“

Árni Páll sagði að þessi ummæli væru afar sérkennileg. Hann sagði að þær sem væru á elli- eða örorkulífeyri hefðu ekki val um það að vakna á morgnana og vinna fyrir sér. „Hvað eiga þessi ummæli að þýða? Hvert er hann flytja umræðuna með þessum hætti? Að grafa einhverveginn undan samstöðu í samfélaginu um það að lífeyrisþegar eigi að njóta að jafnstöðu á við fólk á lægstu á launum, og reyna að búa til einhverja úlfúð á milli fólks á lægstu launum og lífeyrisþega,“ spurði Árni. 

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjarni benti á, að um áramótin muni bætur almannatrygginga hækka að fullu til jafns við launaþróun í landinu, þ.e. 9,7%. „Þegar við bætist þrjú prósent hækkun frá 1. janúar á þessu ári, þá er alveg ljóst að bætur hafa á þessu tólf mánaða tímabili hækkað umfram almenna launaþróun í landinu.“

Hann bætti við, að það væri mikilvægt að menn gerðu sér grein fyrir því að það væri fólk á vinnumarkaði hér á landi sem væri ekki mikið betur sett. 

Skiptir máli að menn geti aftur orðið virkir þjóðfélagsþegnar

„Það er erfitt að koma því í hausinn á Samfylkingarfólki að hvatar skipta máli. Fjölgun t.d. öryrkja er orðið sjálfstætt og sérstakt vandamál og viðfangsefni á Íslandi, og á Norðurlöndunum reyndar líka. Við getum fagnað því í sjálfu sér að það hefur dregið úr fjölguninni, en hún er raunverulegt vandamál,“ sagði Bjarni. 

Hann sagði ennfremur, að á Íslandi væru allt of margir ungir karlmenn að festast utan vinnumarkaðar, eftir að hafa dottið úr námi eða hrakist úr vinnu, og smám saman endað inni á örorkubótum vegna andlegra veikinda. „Okkur er að mistakast að styðja þessa hópa, okkur er að mistakast að styðja þá til nýrrar virkni eða í heilbrigðiskerfinu til þess að takast á við sín vandamál og gera þá að nýju að virkum þjóðfélagsþegnum,“ sagði Bjarni.

„Það skiptir máli fyrir þá sem festast í þessum vef, eða í þessari stöðu skulum við kannski frekar segja, að þeir sjái fram á það að þeir geti bætt kjör sín með því að verða aftur virkir þjóðfélagsþegnar.“

Bjarni og Jesú Kristur

Árni Páll sagði að Bjarni þyrfti ekki að kenna honum neitt um það hvaða hætta steðjaði að ungum mönnum sem hafa dottið út úr vinnu eða skóla. Hann sagði ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hefði komið á fót fjölbreyttum úrræðum fyrir þann hóp. Það hefði svo verið fyrsta verkefni núverandi ríkisstjórnar að afnema öll þau úrræði. M.a. að loka framhaldsskólum fyrir fólk sem sé eldri en 25 ára að ræða.

„Það getur vel verið að hæstvirtur fjármálaráðherra haldi að hann sé eins og Jesú Kristur, geti veitt blindum sýn og fengið sjúka til að taka sæng sína og ganga. En ég held að það sé ekki á færi hans,“ sagði Árni Páll sem hélt því ennfremur fram að Bjarni væri að afvegaleiða umræðuna með sínum ummælum. Árni sagði að stjórnarflokkarnir ætli að hlunnfara lífeyrisþega um 6,6 milljarða kr. á þessu ári og 5,3 milljarða á því næsta. 

Bætur ekki haft meiri kaupmátt í sögu þjóðarinnar

Bjarni benti á, að frá því að ríkisstjórnin komst til valda 2013 hafi verðbólgan farið minnkandi og hún hafi verið stöðugt lág. Það hafi tryggt mikla kaupmáttaraukningu fyrir launþega og kaupmáttaraukningu bóta. „Reyndar þannig að bætur munu aldrei í sögu Íslands hafa haft hærri og meiri kaupmátt heldur en á árinu 2016 ef fram fer sem horfir,“ sagði Bjarni.

Hann furðaði sig á því að umræðan væri á þann veg að stjórnvöld væru að vega að lífskjörum fólks.

Umræðan á Alþingi í dag 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert