Hafrún Kristjánsdóttir, sviðstjóri íþróttafræðisviðs Háskólans í Reykjavík, bendir á að höfuðhöggin 142 sem Gunnar Nelson fékk í bardaganum aðfararnótt sunnudags auki líkur á að hann þrói með sér CTE heilabilun.
Í opinni Facebookfærslu skrifar Hafrún, sem er með doktorspróf í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands, um höfuðhöggin sem Gunnar fékk í bardaganum og þeirri hættu sem fylgir slíkum höggum.
Einkennin eru þunglyndi, kvíði, skert dómgreind ofl
„Gunnar fékk 142 höfuðhögg í bardaganum frá manni sem æfir sig á hverjum degi að kýla. Margir segja að þetta sé í lagi því þeir sem keppa velja þetta sjálfir. Ég velti hins vegar fyrir mér hvort að þeir sem taka þátt í þessu hafi fengið mikla fræðslu um fyrirbæri sem heitir CTE. Ef þeir hafa ekki fengið þá fræðslu þá eru þeir ekki að taka upplýsta ákvörðun, langt þar í frá.
CTE er heilabilun sem kemur oft fram eftir að ferli líkur. Jafnvel mörgum árum eftir að ferli líkur. CTE er vel þekkt meðal fyrrverandi NFL leikmanna. Einkenni CTE eru m.a. þunglyndi, kvíði, stuttur þráður, mikil agressíon i hegðun, skert dómgreind, minnisleysi og erfiðleikar með hegðunarstjórnun. Sjálfsvígstíðni þeirra sem eru með CTE virðist vera töluvert há og til eru sorgarsögur í tengslum við CTE þar sem slæmir hlutir geta gerast þegar skert dómgreind, agressíon í hegðun og stuttur þráður fara saman.
Forsvarsmenn NFL vildu ekkert af þessu vita jafnvel þótt að allar rannsóknir bentu til þess að afleiðingar höfuðhögga væru mikið vandamál meðal fyrrverandi leikmanna. Það var meira segja gerð heimildamynd sem heitir League of Denial (hvet áhugasama til horfa) og í kjölfarið hafa málin aðeins breyst til batnaðar.
Það er alveg klárt að þessi 142 högg sem Gunnar fékk juku líkurnar á að hann þrói með sér CTE í framtíðinni. Ég er ekkert endilega talsmaður þess að MMA verði bannað. En það er algjört lágmark að þeir sem fara þá leið að æfa þetta séu vel upplýstir um CTE. Ég hef einhvern grun um að það sé ekkert endilega þannig. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér,“ skrifar Hafrún.