„Við ætlum ekki að bjóða neitt“

„Við ætlum ekki að bjóða neitt, ekkert! Stjórnarandstaðan getur talað hér þangað til að hún hefur fengið nóg. Þangað til að hún hefur sett nógu rækilegt Íslandsmet í málþófi,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra á Alþingi í dag í umræðum um atkvæðagreiðslu um kvöldfund. Sagði hann stjórnarandstöðuþingmenn hafa kallað eftir fundi þar sem stjórnarliðar ættu að upplýsa hvað þeir ætluðu að bjóða stjórnarandstöðunni fyrir að hætta umræðum um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Það væri hins vegar ekki í boði.

„Hins vegar mun fjárlaganefnd auðvitað meta þær ábendingar sem hafa komið og það sem þarf að skoða fyrir þriðju umræðu fjárlaga. Þar geta hugsanlega komið til einhverjar breytingar. En ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar ætla ekki að mæta fulltrúum stjórnarandstöðunnar til að bjóða þeim eitthvað fyrir að standa í málþófi. Öðru nær,“ sagði forsætisráðherra. Sagði hann athyglisvert að sjá að allir stjórnarandstöðuflokkarnir legðust á eitt. „Bæði gömlu afreksflokkarnir í málþófi, sósíalistaflokkarnir tveir, en líka nýju flokkarnir sem ætluðu að vera allt öðruvísi og þóttust yfir hluti eins og málþóf hafnir. Þeir slá ekki slöku við í málþófinu.“

Gengu með skilti fyrir framan ræðustólinn

Rifjaði Sigmundur ennfremur upp að árið 2012 hafi orðið alllöng umræða um fjárlagafrumvarp þáverandi ríkisstjórnar. Þá hafi tveir fyrrverandi þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna gengið með skilti fyrir ræðustól Alþingis þar sem á hafi staðið „Málþóf“. Það hafi verið 30. nóvember. Nú væri hins vegar komið fram í miðjan desember og ljóst að stjórnarandstaðan ætlaði að setja Íslandsmet í málþófi. Met sem líklega ætti eftir að standa um alla framtíð. 

„Við skulum þá gera stjórnarandstöðunni það kleift að setja metið og hafa það það rækilegt að það standist tímans tönn þannig að þessarar stjórnarandstöðu verði helst minnst fyrir það að á sama tíma og ríkisstjórn kynnti fjárlög sem fólu í sér mesta viðsnúning sem sést hefur í seinni tíð í efnahagsmálum og mestu aukingu til velferðar- og heilbrigðismála þá var eina framlag stjórnarandstöðunnar að setja Íslandsmet í málþófi. Við skulum bara gefa stjórnarandstöðunni sviðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert