Dæmd í fangelsi fyrir kókaínsmygl

Konan flutti efnið hingað til lands með flugi frá London. …
Konan flutti efnið hingað til lands með flugi frá London. Myndin er úr safni.

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt portúgalska konu í 18 mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Konan flutti 988 gr. af kókaíni til landsins sem var ætlað til söludreifingar hér á landi.

Konan, Leónía Isabel Ferreira Marinheiro, var einnig dæmd til að greiða 1,3 milljónir í sakarkostnað og þá verði héraðsdómur kókaínið upptækt. Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald sem Marinheiru hefur sætt frá 1. október sl.

Ríkissaksóknari ákærði Marinheiro 24. nóvember sl. fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 30. september 2015 staðið að ólögmætum innflutningi á 988,3 gr. af kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni.

Fíkniefnin, sem unnt er að framleiða um 2.658 gr. af efni úr miðað við 29% styrkleika, flutti Marinheiro til Íslands sem farþegi með flugi frá London, falin í farangri sínum pökkuðum inn í hljómflutningstækjum, hátölurum og bassaboxi, en hún var handtekinn við komu til Keflavíkurflugvallar.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að Marinheiru hafi játað brot sitt samkvæmt ákæru ríkissaksóknara við fyrirtöku málsins í gær. Við ákvörðun refsingar var ekki framhjá því litið að konan væri sakfelld fyrir að hafa flutt inn til landsins talsvert magn af kókaíni, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Skýlaus játning hennar horfir henni hins vegar til málsbóta.

Þá kemur fram, að engin gögn liggi fyrir um að hún hafi áður gerst sek um refsiverða háttsemi.

„Jafnframt þykir verða að leggja til grundvallar, sem telja verður upplýst í málinu, að aðkoma ákærðu hafi afmarkast við flutning efnanna hingað til lands, hún hafi hvorki komið að skipulagningu né fjármögnun innflutningsins,“ segir í dómi héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert