Laun á Íslandi hækkuðu of mikið

Adolf Guðmundsson, rekstrarstjóri Gullbergs á Seyðisfirði, hefur sett fé í …
Adolf Guðmundsson, rekstrarstjóri Gullbergs á Seyðisfirði, hefur sett fé í Hótel Selfoss. Árni Sæberg

Laun á Íslandi hafa hækkað umfram framleiðniaukningu. Þetta er mat Adolfs Guðmundssonar, fjárfestis og eins eigenda Hótels Selfoss, sem telur að sýna þurfi mikla aðgát við efnahagsstjórnina næstu misserin. Þá segir Adolf styrkingu krónunnar farna að ógna afkomu sumra ferðaþjónustufyrirtækja.

Rætt er við Adolf í Morgunblaðinu í dag í tilefni af undirritun samnings vegna uppbyggingar Hótels Selfoss.

Spurður hvort styrking krónu sé farin að verða til trafala fyrir ferðaþjónustuna segir Adolf það fara eftir samsetningu ferðamanna og hvaðan þeir koma. „Menn þurfa að vanda sig við þetta, að velja inn ferðamenn frá réttum svæðum. Það er auðvitað erfitt. Almennt má segja að krónan sé að verða mjög sterk fyrir mörg ferðaþjónustufyrirtæki. Krónan má ekki styrkjast mikið meira.“

Sem einn helsti útgerðarmaður landsins og fyrrverandi formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna, LÍÚ, þekkir Adolf vel til efnahagsmála á Íslandi. Þá er hann varamaður í bæjarstjórn Seyðisfjarðar og á sæti í hafnarstjórn. Hann hefur verið viðloðandi sveitarstjórnina í 28 ár.

Missi ekki efnahagsbatann úr höndunum

Hann kveðst aðspurður hafa áhyggjur af umsömdum launahækkunum á árinu. Sveitarfélögin á Austurlandi finni vel fyrir því að til dæmis laun kennara hafi hækkað um tugi prósenta.

„Við ættum sem þjóðfélag að hafa alla burði til að standa okkur vel. Ég hef hins vegar haft verulegar áhyggjur af launaþróun og því að laun hafa hækkað langt umfram framleiðni í atvinnulífinu. Það getur snúist í höndunum á okkur ef við gætum okkar ekki. Þá getum við misst þennan góða bata út úr höndunum. Menn þurfa að vanda sig verulega í efnahagsstjórninni.

Til þess að geta staðið undir þeim lífskjörum sem við viljum þarf að auka framleiðni fyrirtækjanna. Menn þurfa þá að fá frið og getu og skilyrði til að gera það. Ég hef áhyggjur af því að menn fari of geyst. Mín varnaðarorð eru að menn þurfa að fara mjög gætilega. Við sem erum í sveitarstjórnum þekkjum þá glímu að ná fjárhagsáætlunum saman. Sveitarfélögin eiga í miklum erfiðleikum með að ná endum saman,“ segir Adolf.

Nánar er rætt við hann í Morgunblaðinu í dag um sóknarfæri í hótelrekstri á Selfossi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert