Olíuleki í þjóðgarðinum

Olía lak út í Flosagjá.
Olía lak út í Flosagjá. Ljósmynd/Facebook-síða þjóðgarðsins á Þingvöllum

Olía lak úr jeppa ferðaþjónustuaðila við Flosagjá í þjóðgarðinum á Þingvöllum í gær með þeim afleiðingum að olía rann út í gjánna. Landverðir í þjóðgarðinum brugðust strax við með því að sækja sag og dreifa í olíuflekkina og brjóta niður klaka til að stýra smitinu frá því að renna í Flosagjá og takmarka tjón. 

Einar Á.E. Sæmundssen, fræðslustjóri þjóðgarðsins, segir að starfsmaður þjóðgarðsins hafi séð til atviksins. Landverðir garðsins hittu ökumanninn en þegar þeir brugðu sér í burtu til að sækja tól til að hreinsa upp lekann hvarf ökumaðurinn á brott. „Við vissum í sjálfu sér aldrei hvað var að bílnum.“

Hann segir að erfitt sé að gera sér grein fyrir hversu mikið magn af olíu hafi lekið á planið og í gjánna þar sem olían smitar mikið og er afar sýnileg. „Það er fyrst og fremst mjög sjónrænt og ljótt að sjá þetta,“ segir Einar.

„Sannanlega er ekkert sniðugt að vera að sleppa olíu út í umhverfið, hvort sem það er viljandi eða óviljandi,“ segir Einar. Þá bendir hann á að atvikið brjóti í bága við lög og reglur þjóðgarðsins og lög um verndun vatnasviðsins. Í lögunum er kveðið á um að ekki megi menga grunnvatn eða yfirborðsvatn garðsins á nokkurn hátt. „Þetta er klárlega mengun þannig þetta gæti talist sem brot, bæði á lögum þjóðgarðsins og lögum um verndun vatnasviðsins.“

Einar segir að þetta sé þriðji eða fjórði olíuflekkurinn sem skilinn hefur verið eftir á svæðinu það sem af er ári. Hann segist ekki vita hvað valdi þessum sóðaskap en telur líklegt að það sé hraðinn í ferðaþjónustunni sem spili þar hlutverk. „Þegar það eru fleiri á ferðinni þá eru mun meiri líkur á því að það gerist eitthvað svona.“

Starfsmenn þjóðgarðsins voru um fjóra tíma í gær að hreinsa upp eftir atvikið og koma í veg fyrir að olían bærist út í gjánna. Þeir dreifðu sagi yfir olíuna til að binda hana en fylgst verður áfram með svæðinu í nótt.

Olían er sýnileg.
Olían er sýnileg. Ljósmynd/Facebook-síða þjóðgarðsins á Þingvöllum
Starfsmenn þjóðgarðsins að störfum.
Starfsmenn þjóðgarðsins að störfum. Ljósmynd/Facebook-síða þjóðgarðsins á Þingvöllum
Starfsmenn þjóðgarðsins dreifðu sagi á veginn.
Starfsmenn þjóðgarðsins dreifðu sagi á veginn. Ljósmynd/Facebook-síða þjóðgarðsins á Þingvöllum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert