Útilokað er talið að frumvarp Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um að útvarpsgjald verði óbreytt á næsta ári, en lækki ekki í 16.400 krónur, eins og fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir, verði að lögum fyrir áramót.
Frumvarpið liggur óafgreitt í ríkisstjórn og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er það Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sem kemur í veg fyrir að frumvarpið fáist afgreitt í ríkisstjórn.
Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum af málefnum Ríkisútvarpsins undanfarnar vikur eru mjög skiptar skoðanir um það í stjórnarflokkunum, hvort RÚV eigi að búa við óbreytt útvarpsgjald á næsta ári miðað við árið í ár. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefur verið eindreginn talsmaður þess að útvarpsgjald lækki um áramót og sömu sögu er að segja af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, varaformanni fjárlaganefndar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.