Langflestum Albönum sem sóttu um hæli í ríkjum Evrópusambandsins á þriðja ársfjórðungi var synjað um hæli eða 99%. Aftur á móti fengu 98% þeirra Sýrlendinga sem sóttu um hæli fjórðungnum jákvætt svar.
Á Íslandi sóttu 106 Albanar um hæli á Íslandi fyrstu 11 mánuðum ársins og líkt og undanfarin ár fá flestir ef ekki allir synjun en víðast hvar í Evrópu er ekki litið á Albana sem flóttamenn (refugee) heldur förufólk (migrants) eða með öðrum orðum fólk sem flýr heimalandið af efnahagslegum ástæðum ekki vegna þess að líf þeirra sé í húfi.
Langflestir þeirra sem sótt hafa um vernd á Íslandi það sem af er ári koma frá Albaníu, eða 34%, en umsóknir einstaklinga frá Albaníu, Kósóvó og Makedóníu nema samanlagt allt að helmingi allra umsókna.
Rétt tæplega helmingur þeirra umsókna sem hefur verið synjað á árinu (til og með 31. október) eru umsóknir frá ríkisborgurum Albaníu (45%) og tæplega tvær af hverjum þremur synjunum eru tilkomnar vegna umsókna frá ríkisborgurum Albaníu, Kósóvó og Makedóníu samanlagt.
Hverju ríki í Evrópu er í sjálfvald sett hvernig þau skilgreina Albaníu en nánast alls staðar er Albanía álitið öruggt land líkt og Kósóvó og Makedónía.
Á vef Útlendingastofnunar segir að flóttamanna- og hæliskerfið er neyðarkerfi, ætlað fólki sem óttast um líf sitt og frelsi. Það sem af er þessu ári hefur Útlendingastofnun veitt 55 manns hæli eða aðra alþjóðlega vernd og árið 2014 voru slíkar veitingar 43 talsins. Þarna eru ekki meðtalin útgefin dvalarleyfi til kvótaflóttafólks en slík leyfi skipta tugum.
Til þess að eiga rétt á alþjóðlegri vernd, því að teljast flóttafólk og eiga rétt á hæli að lögum og samkvæmt alþjóðasáttmálum þarf fólk að vera í einhvers konar hættu og eiga ekki möguleika á viðunandi vernd og úrræðum í heimalandi sínu. Þetta leiðir bæði af flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskum lögum sem sett eru á grundvelli hans.
Efnahagslegar aðstæður fela ekki í sér aðsteðjandi hættu, um það eru alþjóðasáttmálar og lög skýr. Því geta slíkar aðstæður ekki verið grundvöllur verndar. Réttarframkvæmd um heim allan endurspeglar þetta. Hér er, eins og áður segir, um að ræða neyðarkerfi fyrir fólk í hættu en ekki úrræði til búferlaflutninga vegna bágra kjara.
85 fengu hæli af mannúðarástæðum
Ef litið er til afgreiðslu hælisumsókna Albana í ríkjum ESB á þriðja ársfjórðungi kemur fram að af 17.330 umsóknum fengu 17.125 Albanar synjun. Alls fengu 205 jákvæða afgreiðslu. Þar af fengu 45 stöðu flóttamanns, 75 fengu vernd af öðrum ástæðum (t.d. ef lífi þeirra hefur verið ógnað í heimalandinu – þá yfirleitt vegna hættu á blóðhefnd) og svo fengu 85 hæli af mannúðarástæðum.
Ef farið er yfir upplýsingar á vef Hagstofu Evrópu sést að á fyrsta ársfjórðungi voru íbúar Kósóvó stærsti hluti hælisumsækjanda í ríkjum ESB. Á öðrum ársfjórðungi taka Sýrlendingar við efsta sætinu og Albanir færast í þriðja sætið með 8% umsókna en á fyrsta ársfjórðungi var hlutfall þeirra 4% þeirra sem voru að sækja um hæli í ríkjum ESB. Á þriðja ársfjórðungi eru Albanir komnir í annað sæti yfir hælisleitendur eða 14%.
Á undanförnum árum hafa hælisleitendur frá Albaníu verið afar áberandi á Íslandi en fyrirliggjandi upplýsingar og mannréttindaskýrslur eru samhljóða um að Albanía sé friðsælt lýðræðisríki þar sem hvorki er stríðsástand né ógnarstjórn, segir á vef Útlendingastofnunar.
Ekki í hættu en vantar vinnu
„Í mörgum málum ber fólk því ekki við að það sé í neinni hættu og sækir um hæli sem flóttafólk vegna þess að það vantar atvinnu eða býr við slök lífskjör. Telji fólk sig í hættu eru lögregla og yfirvöld í Albaníu í langflestum tilfellum fullfær um að veita viðeigandi aðstoð.
Í ljósi þessa og atvika í hverju máli er stór hluti umsókna albanskra ríkisborgara sem tekin hefur verið afstaða til talinn bersýnilega tilhæfulaus. Sömu sögu er að segja annars staðar í Evrópu þar sem umsóknum albanskra ríkisborgara um alþjóðlega vernd er synjað í vel yfir 90% tilfella. Ýmist þarf fólk ekki á vernd að halda eða yfirvöld í Albaníu eru fullfær um að veita þá aðstoð sem nauðsynleg er vegna aðstæðna þeirra.
Séu þær aðstæður uppi að albanskur ríkisborgari sé í hættu í heimalandi sínu og eigi ekki möguleika á vernd í þar er honum eða henni veitt alþjóðleg vernd hér á landi eins og lög og alþjóðasáttmálar mæla fyrir um. Rétt er að taka fram að hvert mál er rannsakað sérstaklega, bæði varðandi persónulegar aðstæður viðkomandi heima fyrir og almennar aðstæður þar.
Eins og áður segir geta efnahagslegar aðstæður fólks ekki verið grundvöllur verndar á borð við stöðu flóttamanns. Þá staðfesta skýrslur og upplýsingar um Albaníu að þar sé fyrir hendi skilvirkt atvinnuleysis- og bótakerfi auk almennra sjúkratrygginga,“ segir á vef Útlendingastofnunar.
Albanir hafa sömu möguleika á að sækja um og fá dvalarleyfi hér á landi og aðrar ríkisborgarar ríkja utan evrópska efnahagssvæðisins. Um slíkar umsóknir gilda, hér á landi eins og víðast hvar annars staðar, lög og reglur sem verður að fylgja og hvað þetta varðar verður Útlendingastofnun að gæta jafnræðis. Ekki er hægt að komast í kringum þessar reglur með því að sækja um hæli sem flóttamaður.
Undanfarin ár hafa yfir 90% allra dvalarleyfisumsókna verið samþykktar hjá Útlendingastofnun. Á fjórða þúsund umsóknir um dvalarleyfi berast stofnuninni á hverju ári en dvalarleyfi sem grundvallast á atvinnu hér á landi eru háð því að Vinnumálastofnun veiti atvinnuleyfi.
Mikil fátækt
Í umfjöllun Spigel um stöðu mála í Albaníu fyrr á árinu kemur fram að mikið atvinnuleysi, allt að 30%, hafi rekið fjölmarga Albana af stað í atvinnuleit í öðrum löndum.
Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðabankanum skipar Albanía 9 sæti lista yfir þá sem hafa yfirgefið heimalandið, það er miðað við hlutfall af höfðatölu. Á fyrstu sjö mánuðum ársins sóttu tæplega 30 þúsund Albanar um hæli í Þýskalandi. Á síðasta ári voru umsóknirnar ekki nema átta þúsund talsins allt árið.
Í Spigel kemur fram að þessi mikla bylgja flóttafólks frá Albaníu til Þýskalands byggi meðal annars á orðrómi frá Kósóvó um að það vanti vinnuafl í Þýskalandi og það sé auðvelt að komast þangað.
Albanir eru ekki lengur krafðir um vegabréfsáritun í ríkjum innan Schengen landamærasamstarfsins og geta þeir nú dvalið í þrjá mánuði á ári sem ferðamenn í ríkjum á Schengen svæðinu. Við komuna til Þýskalands sækja margir um hæli og fá greiddar 143 evrur á mánuði í framfærslu á meðan þeir bíða eftir starfi eða afgreiðslu sinna mála, samkvæmt Spigel.
Albanía var áður kommúnistaríki og eftir að kommúnistar misstu völdin var landið á barmi borgarastyrjaldar. En nú er þar þingbundið lýðræði. Albanía hefur sótt um aðild að ESB og er umsóknin í aðildarferli. En Albanía er einnig land þar sem mansal og skipulögð glæpastarfsemi er daglegt brauð. Fjölmörg sprengjutilræði hafa verið gerð þar í tengslum við skipulagða glæpastarfsemi og illdeilna meðal stjórnmálamanna og fjölskyldna. Albanía er eitt spilltasta land í heimi og margar fjölskyldur eru lokaðar inni á heimilum sínum af ótta við blóðhefnd.
Rúmar tvær evrur á tímann
Albanía er fátækasta land Evrópu, að minnsta kosti meðal þeirra 37 ríkja sem Eurostat heldur gagnagrunn um. Eftir 1990 var samyrkjubúum lokað og iðnaðurinn kominn af fótum fram. Á sama tíma yfirgaf helmingur vísindamanna og háskólamanna landið. Um það bil helmingur þjóðarinnar vinnur við landbúnað og verg landframleiðsla er aðeins einn áttundi af meðaltali ESB. Laun eru afar lág og að meðaltali er tímakaup í Albaníu rúmar tvær evrur, sem svarar til 285 króna.
En enginn er ofsóttur fyrir gagnrýni á stjórnvöld. Það er ekki stríð í landinu og sígaunar, samkynhneigðir og fleiri hópar sem oft eru bitbein ofsókna sæta ekki ofsóknum í Albaníu.
Spiegel ræddi við fjölskyldu í Albaníu þar sem hluti fjölskyldunnar vildi yfirgefa landið og leita nýrra tækifæra. Þau töluðu um brottflutta Albana sem hafi gengið vel í nýja landinu og hafi getað sent pening heim til aldraðra foreldra.
Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, segist skilja að lífskjör í Þýskalandi séu freistandi fyrir ungt fólk í Albaníu. Hann vill að Albanía gangi í ESB en áratugum saman byggði efnahagur landsins á sprengingu í mannvirkjagerð og peningayfirfærslum frá þeim sem fluttu á brott. Stjórnvöld hafa reynt að leggja áherslu á annars konar viðskipti, svo sem orkuiðnað, ferðamennsku, fjarskiptamarkaðinn og fataframleiðslu. En breytingin tekur tíma segir Rama og í raun hafi framþróunin staðið í stað.
Rama telur að á meðan fólksstraumurinn er jafn mikill úr landi og margir Albanar sækja um hæli í ríkjum Evrópu þá eigi Albanía ekki möguleika á að fá aðild að ESB. Rama á sér draum sem hann hefur rætt við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands. Að það verði komið á samstarfi milli ríkjanna tveggja um nám í Albaníu þar sem Albanir fengju kennslu í atvinnugreinum sem Þjóðverjar vilja sjálfir ekki starfa við.
Líkt og fram hefur komið voru 27 einstaklingar fluttir af landi brott 10. desember í samstarfi Útlendingastofnunar, ríkislögreglustjóra og Frontex Landamærastofnun Evrópu. Þar af voru fimm fjölskyldur, þrjár frá Makedóníu og tvær frá Albaníu.
Báðar albönsku fjölskyldurnar höfðu ákveðið að una ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á hæli og höfðu dregið til baka kærur sínar til kærunefndar útlendingamála. Fjölskyldurnar óskuðu í kjölfarið eftir flutningi til heimalands, segir á vef Útlendingastofnunar en mikil reiði ríkir í garð yfirvalda vegna brottvísunar albönsku fjölskyldnanna . Einkum vegna þess að í báðum fjölskyldum eru börn sem glíma við mjög alvarlega sjúkdóma.
10% fá ríkisborgararétt með lögum frá Alþingi
Sótt hefur verið um íslenskan ríkisborgararétt fyrir fjölskyldurnar tvær og mun allsherjarnefnd fjalla um umsóknir þeirra sem og annarra sem hafa sótt um að fá íslenskan ríkisborgararétt í gegnum Alþingi . Alls hafa 63 óskað eftir því að fara þessa leið til þess að fá íslenskt ríkisfang.
Frumvarp um veitingu ríkisborgararéttar hefur ekki verið lagt fram enn en Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður nefndarinnar, segir að það komi fram áður en þingi verður slitið fyrir jól.
Rúmlega 600 útlendingum var í fyrra veittur íslenskur ríkisborgararéttur, en af þeim fengu um 60 ríkisfang sitt með lögum frá Alþingi.
Björg Thorarensen, prófessor í stjórnskipunarrétti við lagadeild HÍ, segir vald Alþingis til að veita slíkan rétt sérstakt fyrirkomulag.
Útlendingum er í langflestum tilvikum veittur íslenskur ríkisborgararéttur með stjórnvaldsákvörðun samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Er það þá Útlendingastofnun sem sér um afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt og veitingu hans.
„Þeir sem fara þessa leið þurfa að sýna fram á að þeir uppfylli ákveðin skilyrði samkvæmt lögunum. Almenna reglan er að umsækjandi skuli hafa átt lögheimili hér í sjö ár, en sé hann ríkisborgari í einhverju öðru norrænu ríki þarf hann þó einungis að hafa átt lögheimili hér í fjögur ár,“ segir Björg í viðtali við Morgunblaðið, og bendir á að sérreglur gilda t.a.m. um búsetutíma flóttamanna og þeirra sem fengið hafa dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Þurfa þeir einstaklingar að hafa hér átt lögheimili í fimm ár.
Önnur skilyrði sem þarf að uppfylla eru t.d. að umsækjandi hafi með fullnægjandi hætti sannað hver hann sé, að hann sé starfhæfur og vel kynntur, að hann geti framfleytt sér hérlendis og hafi ekki þegið framfærslustyrk frá sveitarfélagi síðastliðin þrjú ár. Umsækjandi þarf einnig að sýna fram á að hann hafi ekki, hérlendis eða erlendis, sætt sektum eða fangelsisrefsingu og að árangurslaust fjárnám hafi ekki verið gert hjá honum síðastliðin þrjú ár.
Til er önnur leið við þegnleiðingu og er það þegar Alþingi ákveður að veita ríkisborgararétt með sérstökum lögum. „Þetta er vissulega svolítið sérstakt fyrirkomulag því þarna er Alþingi að afgreiða persónulegar umsóknir einstaklinga sem er ólíkt öðrum verkefnum þingsins. En þetta er hins vegar upprunalega aðferðin við veitingu ríkisborgararéttar,“ segir Björg og bendir á að með stjórnarskrárbreytingu árið 1995 hafi stjórnvöldum fyrst verið falið að veita ríkisborgararétt á grundvelli lögákveðinna skilyrða. Alþingi hélt hins vegar áfram sínu valdi samhliða.
„Alþingi hefur nú ákveðið svigrúm til að veita sumum einstaklingum forréttindi umfram aðra,“ segir Björg en þannig getur þingið veitt þeim einstaklingum sem ekki uppfylla almenn lögbundin skilyrði um ríkisborgararétt ríkisfang á Íslandi. Dæmi um slíkt eru Bobby Fischer skákmeistari og ómálga barn sem kom frá Indlandi.
Fáar leiðir færar inn í landið
Upplýsingar um heilbrigðiskerfið í Albaníu