Miklar umræður fóru fram á Alþingi í morgun um dagskrártillögu formanna stjórnarandstöðuflokkanna um að frumvarp Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um húsnæðisbætur yrði fyrsta mál á dagskrá að lokum óundirbúnum fyrirspurnum. Fyrsta mál á dagskrá er hins vegaralþjóðleg þróunarsamvinna Íslands. Þar með talinn flutningur verkefna Þróunarsamvinnustofnunar til utanríkisráðuneytisins. Tillagan var felld í atkvæðagreiðslu með 31 atkvæði gegn 16 eftir langa umræðu þar mjög var deilt um málið.
Stjórnarliðar sökuðu stjórnarandstöðina um að hafa ekki staðið við samkomulag sem gert hafi verið í tengslum við þinglok síðasta vor um að frumvarp Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra yrði afgreitt síðasta haust. Það samkomulag hafi verið þverbrotið. Stjórnarandstaðan segir samkomulagið aðeins hafa snúist um að málið yrði sett á dagskrá en ekki að það yrði afgreitt. Gunnar Bragi sagði það fáránlega nálgun enda ljóst að ekkert samkomulag þyrfti við stjórnarandstöðu til þess að setja mál á dagskrá þingsins.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að stjórnarþingmenn yrði einfaldlega að gera skriflegt samkomulag þar sem nákvæmlega væri skráð við hvað væri átt. Það væri lausnin á þessu máli. Stjórnarþingmenn sögðu að samkomulagið hafi verið skriflegt og að Helgi Hrafn hafi meðal annars ritað undir það fyrir hönd Pírata. Hann hafnaði því hins vegar að hafa samþykkt annað en að málið yrði tekið aftur upp á haustþinginu. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist aldrei hafa orðið vitni að öðrum eins óheiðarleika.
Stjórnarliðar rifjuðu einnig upp samkomulag við stjórnarandstöðuna um að umræða um þróunarmálin héldi áfram eftir að önnur umræða um fjárlagafrumvarpið lyki sem gerðist í gærkvöldi. Helgi Hjörvar, þingflokksformaður Samfylkingarinnar sem stóð að því samkomulagi fyrir hönd síns flokks, sagði aldrei hafa verið talað um að það yrði gert strax að því loknu. Stjórnarliðar hvöttu til þess að þróunarmálin yrðu kláruð svo hægt yrði að afgreiða meðal annars frumvarp Eyglóar. Sökuðu þeir stjórnarandstöðuna um að standa í vegi þess.