„Það var verndarengill yfir fjölskyldu minni í dag,“ segir Sæþór Steingrímsson, en glerbrotum rigndi inn í bifreið konu hans þegar óhapp varð við Höfðabakkabrú í dag. Í bifreiðinni var einnig fjögurra ára sonur hjónanna, sem fékk glerbrotin á sig en slapp án skrámu.
Frétt mbl.is: Gler dreifðist út um allt
Óhappið bar að með þeim hætti að flutningabifreið með glerfarm innanborðs rakst undir brúnna, með þeim afleiðingum að glerið dreifðist út úm allt. Kona Sæþórs var í bílnum fyrir aftan flutningabifreiðina og vissi ekki fyrr en mikið magn glerbrota braut sér leið inn í bílinn, gegnum topplúgu og hliðarrúðu.
Sæþór segir mikla mildi að ekki fór verr, þar sem konu hans tókst að halda stjórn á bílnum og hvorki hún né sonur þeirra hjóna sem sat í bílstól í aftursætinu, hlutu skaða af. Henni brá þó verulega, en kona sem varð vitni að óhappinu bauð þeim mæðginum upp í bíl sinn og hlúði að þeim.
Þegar Sæþór kom á vettvang tók hann myndir af verksummerkjunum, en þess ber að geta að þá hafði hann þegar sópað mestu af glerinu úr bílnum. Þegar heim var komið kom í ljós að skór sonar hans voru fullir af glerbrotum, en líkt og fyrr segir var ekki að finna á honum skrámu.
„Þetta hefði getað farið mjög illa,“ segir Sæþór, ánægður með að einu eftirmálar atburðarins er tryggingamál vegna bílsins.