Borgarráð samþykkti í dag stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilega fjölbreytni en borgin er fyrsta höfuðborgin á Norðurlöndum til að samþykkja slíka stefnu. Borgarstjóri segir um að ræða framsækið verkefni.
Málinu var vísað til umræðu í borgarstjórn og samþykktar á nýju ári.
„Þetta er framsækið verkefni þar sem við ætlum að tryggja líffræðilega fjölbreytni í borginni með verndunaraðgerðum, rannsóknum, vöktun og fræðslu. Það er heilmikil náttúra í Reykjavík þannig að við þurfum að passa okkur á öllum skipulagsstigum til að líffræðileg fjölbreytni sé í forgangi," er haft eftir Degi B. Eggertssyni í tilkynningu frá borginni.
„Vistkerfið í Reykjavík er fjölbreytt, hvort sem maður horfir á Vatnsmýrina, leirurnar, garðana eða árnar; hér iðar allt af lífi. Líffræðileg fjölbreytni er líka mikilvæg í samhengi loftslagsbreytinga, bæði í bindingu kolefnis og aðlögunar gegn loftslagsbreytingum.“
Í tilkynningunni segir að líffræðileg fjölbreytni vísar til margbreytileika lífríkisins í umhverfi fólks, allt frá einstaklingum og stofnum einstakra tegunda til lífsamfélaga og vistkerfa. „Þessi fjölbreytni er undirstaða náttúruauðlinda, sem eru lífsnauðsynlegar fyrir afkomu manna en mótar einnig lífsgæði og hamingju, ekki síst í borgum þar sem náttúra getur verið af skornum skammti.“
Ítarlega frétt um málið er að finna á vef Reykjavíkurborgar.