Hugsanleg lokun álversins í Straumsvík hefði mikil þjóðhagsleg, og enn meiri staðbundin, áhrif. Þannig námu útflutningstekjur fyrirtækisins á síðasta ári 56 milljörðum króna. Fyrir Hafnarfjörð yrði beinn tekjumissir um 700 milljónir króna á ári. Þá yrðu áhrifin mjög mikil fyrir starfsmenn fyrirtækisins og þau fyrirtæki og einstaklinga sem þjónusta álverið.
Þetta kemur fram í svari Ragnheiðar Elínar Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Vigdísi Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins. Ennfremur er beint á að lokun álversins gæti spillt orðspori Íslands varðandi áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hér á landi. Vísað er í þessu sambandi í greinargerð efnahagsskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fygt hafi frumvarpi til laga um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Þar hafi verið lagt gróft mat á þessi áhrif en ekki metin önnur notkun á framleiðsluþáttum álversins ef til lokunar kæmi nema sá þáttur sem snúi að starfsmönnum. Þá hafi hvorki verið lagt mat á það hvaða líkur væri á lokun fyrirtækisins né afleiðingar þess fyrir viðskiptahagsmuni opinberra fyrirtækja eins og Landsvirkjunar og Landsnets.
Vöruskiptajöfnuður álversins jákvæður
Fram kemur að heildarfjárfesting álversins í Straumsvík hafi numið rúmlega 20 milljörðum króna á ársgrundvelli á árunum 2011–2013 en um 7 milljörðum króna á árinu 2014. Á þessu ári hafi innstreymi fjármagns til landsins vegna fjárfestinga fyrirtækisins hins vegar verið óverulegt. Um fjórðungur útflutningsverðmæta álframleiðslu hér á landi verði til í álverinu í Straumsvík. Verðmæti útflutnings álversins á síðasta ári hafi numið 56 milljörðum króna og á sama ári megi gróflega áætla að fyrirtækið hafi flutt inn hráefni og aðföng fyrir 30 milljarða króna. Vöruskiptajöfnuður félagsins hafi því verið jákvæður um 26 milljarða króna. Af þeirri fjárhæð hafi 4 milljarðar króna orðið eftir í landinu vegna launa í álverinu, hálfur milljarður vegna fasteignaskatta og tæplega 170 milljónir króna vegna hafnargjalda.
„Staðan á vinnumarkaði hefur batnað mikið að undanförnu og síðustu tvö árin hefur flutningsjöfnuður vinnuafls verið jákvæður til landsins. Samkvæmt hagtölum fjölgar störfum hratt og verður svo áfram næstu árin sé litið til nýjustu hagspár Hagstofunnar. Allmörg störf hjá álverinu eru skilgreind sem sérhæfð og laun starfsmanna eru yfir meðaltali á landinu. Gera má ráð fyrir að iðnaðarmenn sem starfa hjá álverinu gætu fljótlega gengið í önnur störf á höfuðborgarsvæðinu en óljóst er hversu langan tíma tæki fyrir annað sérhæft starfsfólk álversins að finna störf við hæfi,“ segir ennfremur.
Skilar hinu opinbera verulegum tekjum
Hvað varðar áhrif á hið opinbera kemur fram í svarinu að áætlað sé að tekjur ríkissjóðs af starfsemi álversins í Straumsvík nemi rúmum einum milljarði króna á ári í formi tekjuskatts og tryggingagjalds. „Tekjur sveitarfélaga nema um 600 millj. kr. vegna útsvars starfsmanna, 300 millj. kr. af fasteignagjöldum og tæplega 170 millj. kr. af hafnargjöldum. Samtals nema tekjur hins opinbera af starfsemi álversins rúmlega 2 milljörðum kr. á ársgrundvelli. Þá er ótalinn skattur sem hið opinbera aflar vegna starfsemi fyrirtækja sem þjónusta álverið. Með auknum umsvifum í hagkerfinu í ár og til næstu ára má hins vegar gera ráð fyrir að launaskattur og óbeinn skattur mundi skila sér til ríkissjóðs með einum eða öðrum hætti vegna tilfærslna á störfum og verkefnum.“
Ennfremur er fjallað um staðbundin áhrif þess ef álverinu yrði lokað. Þannig hafi fyrirtækið mikla þýðingu fyrir Hafnarfjarðarbæ og skilaði rekstur þess bænum umtalsverðum fjármunum í beinum og óbeinum tekjum. „Af 600 millj. kr. tekjum sveitarfélaga vegna útsvars er tæplega helmingur hlutur Hafnarfjarðarbæjar. Þá ganga öll fasteignagjöld, lóðaleigugjöld, vatnsgjöld og hafnargjöld til sveitarfélagsins. Samtals nemur sú fjárhæð rúmlega 700 millj. kr. og eru þá ótaldar óbeinar tekjur frá öðrum fyrirtækjum í sveitarfélaginu sem þjónusta álverið. Þá má geta þess að álverið hefur stutt íþróttastarfsemi sveitarfélagsins með 9 millj. kr. framlagi á ári.“
Hafa sérhæft sig í að þjónusta álverið
Bent er á það að síðustu að nokkur fyrirtæki í Hafnarfirði hafi sérhæft sig í að þjónusta álverið og hefði því lokun þess áhrif á þau. „Erfitt er að áætla hvort og hversu langan tíma það mundi taka þessi fyrirtæki að aðlagast breyttum aðstæðum. Vinnumálastofnun áætlar að vinnuafl í Hafnarfirði sé að meðaltali um 15.850 manns. Að meðaltali störfuðu 415 manns í álverinu á árinu 2014. Þar af eru að jafnaði 198 búsettir í Hafnarfirði samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ en það er um 1,25% af heildarvinnuafli sveitarfélagsins. Atvinnuleysi í Hafnarfirði var um 2,9% í ágúst sl. og á höfuðborgarsvæðinu um 2,2%.“