Úrskurðarnefnd umhverfis og skipulagsmála komst að þeirri niðurstöðu í dag að deiliskipulag á flugvallarsvæðinu í Vatnsmýrinni sem samþykkt var á síðasta ári sé ógilt vegna formgalla í málsmeðferð.
Fyrir vikið er því enn í gildi deiliskipulag sem samþykkt var árið 1986. Kærendur í málinu voru eigendur flugskýla á Fluggörðum á flugvallarsvæðinu. Töldu þeir að ekki hefði verið haft samráð við þá áður en deiluskipulagið var samþykkt auk þess sem málsmeðferð hafi verið ófullnægjandi.
Samkvæmt niðurstöðu úrskurðarnefndar var deiliskipulagið fellt úr gildi vegna breytinga sem gerðar voru á greinagerð eftir að afgreiðslu borgarstjórnar á deiliskipulagstillögu lauk.
Dagur B. Eggertsson segir að niðurstaða nefndarinnar breyti í engu áformum á Hlíðarendasvæði og breyti jafnframt engu um fyrirhugaða lokun flugbrautar á Reykjavíkurflugvelli.
„Þetta varðar deiliskipulag Reykjavíkurflugvallar en ekki þeirrar uppbyggingar sem er í gangi á Hlíðarendasvæði [...] Þetta breytir því ekki að innanríkisráðuneytið þarf að leggja niður þriðju flugbrautina,“ segir Dagur aðspurður um málið.
Að hans sögn mun þetta í mesta lagi þýða nokkurra vikna bið á því að deiliskipulag verði samþykkt að nýju. „Það fer eftir því hvort að það nægi að leggja þetta fyrir fund og samþykkja aftur eða eftir því hvort við þurfum að endurauglýsa,“ segir Dagur.