Helga Melkorka Óttarsdóttir, hæstaréttarlögmaður, segir óljóst hvernig túlka eigi helstu lagareglur um réttarstöðu fyrirtækja í samkeppnismálum.
„Samkeppnislögin eru komin til að vera en vandinn getur falist í því hvernig á að beita þessum lagareglum,“ sagði Helga Melkorka á fundi Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins í morgun um réttarstöðu fyrirtækja við rannsókn mála.
Taldi hún mikilvægt að ákveðið samtal gæti farið fram á milli stjórnvalda og fyrirtækjanna sem eru í rannsókn hverju sinni. „Það er ekki nóg að vera bara með almenna fræðslufundi. Það þarf samtal að geta átt sér stað. Ég held að það gæti breytt mjög miklu.“
Dómstólar í Svíþjóð ákveða þær sektarfjárhæðir sem fyrirtæki fá en hér á landi er það í höndum Samkeppniseftirlitsins. Helga setti spurningamerki við fyrirkomulagið hér á landi. „Það vantar á Íslandi leiðbeiningar og viðmið um fjárhæð sekta,“ sagði hún.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var viðstaddur fundinn ásamt Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Brynjar sagði erfitt fyrir fyrirtæki að starfa í umhverfi þar sem reglur eru matskenndar. „Þá er mikilvægt að þeir sem með valdið fara gæti meðalhófs,“ sagði hann. „Miðað við hvað eftirlitsaðilar fara með mikið vald þá finnst mér ábyrgðin sem þeir þurfa að sæta ekki mikil. Það er afar mikilvægt að þeir sem veljast til svona starfa fari vel með það og ég held að því verði ekki breytt með löggjöf.“
Ragnheiður Elín bætti við: „Ég held að útgangspunkturinn hljóti að vera sá að íslensk lagaumgjörð þurfi að vera sambærileg við það sem gerist annars staðar. Það þarf að vera aukin leiðbeiningarskylda. Við höfum lagt áherslu á það en auðvitað getum við gert betur,“ sagði hún.
„Með því að auka leiðbeininguna fækkar vonandi málum, sem verður til þess að það verður hægt að einbeita sér að þeim málum sem upp koma og eru kannski alvarlegri.“
Una Særún Jóhannsdóttir, sérfræðingur hjá sænska samkeppniseftirlitinu, ræddi um rannsóknir á fyrirtækjum sem grunuð eru um lögbrot í Svíþjóð á fundinum.
Hún sagði að sænska samkeppniseftirlitið leggi mikla vinnu í að fræða fyrirtæki um hvað má og hvað má ekki þegar samkeppnismál eru annars vegar.
„Í Svíþjóð hafa komið upp mörg mál þar sem fyrirtækin gerðu sér ekki grein fyrir því að þau væru að brjóta á samkeppnislögunum,“ sagði Una.
Hún bætti við að aðildarríki Evrópusambandsins taki þátt í rannsóknum hvert hjá öðru og veita ýmiss konar upplýsingar á milli landa. Mjög náið samstarf sé á milli samkeppniseftirlita aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnar ESB við rannsókn mála.
Ítarlegar reglur eru um framkvæmd húsleitar í sænsku samkeppnislögunum og þarf ákvörðun frá dómstóli til að gera megi leit í fyrirtæki eða í farartækjum og á heimilum stjórnenda eða starfsmanna.
Mikil áhersla er lögð á það í Svíþjóð, að sögn Unu, að fyrirtæki geti leitað réttar síns ef þau eru grunuð um brot á samkeppnislögum. Stjórnendur og lögmenn fyrirtækja fá afrit af þeim gögnum sem lagt er hald á við húsleit og geta þau skotið réttmæti ákvörðunarinnar um leitina til dómstóls.
Bætti hún við að þeim gögnum sem hafa ekki sönnunargildi er eytt við lok rannsókna og er sérstök tækni notuð við það.
Frétt mbl.is um gagnrýni Reimars Péturssonar á fundinum í morgun