„Sé deilt um hvort Útlendingastofnun hafi farið að lögum eða ekki ber dómstólum að leysa úr slíkum ágreiningi. Þótt Alþingi ákveði ríkisborgararétt með lögum ber þingmönnum að virða þrískiptingu valdsins,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á Facebook-síðu sinni.
Vísar Björn þar til ummæla Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins og formanns allsherjarnefndar Alþingis, þess efnis að til greina komi að veita tveimur albönskum fjölskyldum, sem sóttu um hæli hér á landi en var neitað um það af Útlendingastofnun, íslenskan ríkisborgararétt en Alþingis hefur til þess heimild að tillögu nefndarinnar. Sömuleiðis þeirra ummæla Unnar að kanna þurfi hvort fjölskyldurnar hafi fengið rangar upplýsingar og hvort tekið hafi verið nægt tillit til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Rétt að bíða skýrslu umboðsmanns Alþingis
Björn bendir á að umboðsmaður Alþingis hafi tilkynnt að hann ætli að kanna þessi atriði sem sé eðlilegt enda um stjórnsýslumál að ræða. Hann muni síðan gefa Alþingi skýrslu. Spyr Björn hvort ekki sé skynsamlegt fyrir allsherjarnefnd Alþingis að bíða eftir skýrslu umboðsmanns. „Umboðsmaður ætlar að athuga hvernig Útlendingastofnun athugaði heilbrigðiskerfið í Albaníu. Auðvitað hljóta allir að bíða niðurstöðu hans, ekki síst þingnefndin. Hann er jú Umboðsmaður Alþingis.“
Björn bendir á að umsóknir fjölskyldnanna tveggja um hæli hér á landi hafi þegar fengið lögmæta meðferð innan íslenska stjórnkerfisins og að umsækjendurnir hafi látið hjá líða að áfrýja málinu eins og þeir hafi getað gert. Lög gildi um meðferð hælisumsókna og ekki sé gert ráð fyrir afskiptum Alþingis af afgreiðslu umsókna um hæli. „Hafi barnasáttmáli [SÞ] ekki verið virtur eða gerð stjórnsýsluleg mistök ber að skoða það á réttum vettvangi og taka ákvarðanir, allsherjarnefnd Alþingis eða undirnefnd hennar er ekki sá vettvangur.“
Vill opinbera úrskurði Útlendingastofnunar
„Útlendingastofnun sinnir verkefnum sínum í samræmi við lög og reglur og er meira undir smásjá í störfum sínum en aðrar ríkisstofnanir. Umræður um útlendingamál hér eru nokkrum misserum á eftir því sem er í nágrannalöndunum eins og hugmyndir um ný útlendingalög sýna. Brýnt er að þingmenn fylgist náið með framvindu á þessu sviði,“ segir Björn ennfremur og bætir við að hvert hælismál sé metið og öllum ákvörðunum stofnunarinnar sé unnt áfrýja til æðra stjórnvalds eða dómstóla.
„Það er einkennileg lenska að sparka í starfsmenn [Útlendingastofnunar]. Í raun ætti að birta úrskurði hennar svo að sjá megi við hvað er að eiga og hvernig á málum er tekið. Almenningi birtist jafnan aðeins það sem málsvarar hælisleitenda telja henta skjólstæðingum sínum. Látið er eins og fara eigi með hina hliðina sem ríkisleyndarmál,“ hann og áfram: „Að þingmenn ætli hins vegar að taka fram fyrir hendur á stjórnsýslustofnun eftir að hún hefur fellt úrskurð lögum samkvæmt er dæmalaust og jafngildir því að þingmenn ætli að taka framkvæmd útlendingalaga í sínar hendur.“