Heildarendurskoðun á eldsneytisgjöldum

Fjármálaráðherra hyggst fara í heildarendurskoðun á skattlagningu á ökutækjum og …
Fjármálaráðherra hyggst fara í heildarendurskoðun á skattlagningu á ökutækjum og eldsneyti. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjármálaráðherra, Bjarni Benediktsson hyggst ráðast í heildarendurskoðun á skattlagningu á eldsneyti og ökutækjum en fjallað var um það á ríkisstjórnarfundi í dag. Teitur Björn Einarsson, aðstoðarmaður ráðherrans, segir að vinnan hafi verið í undirbúningi um þó nokkurt skeið en að hún fari formlega af stað núna.

„Það er löngu tímabært að ráðast í einföldun á þessu kerfi en í dag heyrir þetta undir sjö lagabálka. Við munum horfa til þriggja meginþátta við þessa vinnu en það er í fyrsta lagi umhverfissjónarmið, í öðru lagi tekjuöflun ríkisins og í þriðja lagi fjármögnun á uppbyggingu í samgöngukerfinu,“ segir Teitur Björn og bætir við að um sé að ræða rökrétt næsta skref á eftir afnámi tolla og vörugjalda. Þá þurfi að samræma gjöldin eftir að lög um opinber fjármál tóku gildi. „Svo er verið að horfa til markmiða um minnkun á losun í útblæstri ökutækja og stefnumótun til framtíðar um hvernig við aukið hlutdeild vistvænna ökutækja,“ segir Teitur Björn. 

Átta tegundir af gjöldum

Hann segir ennfremur að í ljósi breytinga á virðisaukaskattskerfinu, m.a. með því að fella ýmsa aðila í ferðaþjónustu inn í kerfið, hafi orðið ríkari þörf á að ráðast í umbætur á kerfinu. „Þetta er töluvert flækjustig við erum að tala um bifreiðagjald, vörugjald, virðisaukaskatt og úrvinnslugjald á ökutækin en á eldsneyti ertu með vörugjald, olíugjald, kílómetragjald, kolefnisgjald, flutningsjöfnunargjald og virðisaukaskatt,“ segir Teitur Björn.

Teitur segir að ekki sé útséð eða gott að tjá sig um nákvæmlega hvernig gjöldin muni koma til með virka á þessum tímapunkti þar sem líta verði til margra sjónarmiða við vinnuna s.s. þróun hvað varðar rafbíla, ferðaþjónustu og jafnræðissjónarmiða. Þó muni einföldun ekki síst létta undir með litlum og meðalstórum fyrirtækjum.

Auk þess hafi komið upp ýmis mál í tengslum við flokkun ökutækja. Að flókið og erfitt geti verið fyrir skattrannsóknaryfirvöld að raða ökutækjum niður á gjaldflokka. Nefnir hann til dæmis pallbíla sem geta ýmist fallið í flokk atvinnutækja eða einkabifreiða en einnig geti bifreiðar með sömu vél og grind fallið í ólíka gjaldflokka eftir því hver yfirbyggingin á þeim sé. Slíkt geri kerfið þungt í meðferð og sé ekki skilvirk tekjuöflun fyrir ríkissjóð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert