Talsverðu frosti spáð á aðfangadag

Það bendir allt til þess að það viðri vel til …
Það bendir allt til þess að það viðri vel til þess heimsækja leiði ættingja og vina á aðfangadag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Það hvessir aftur á morgun en höfuðborgarsvæðið verður í vari fyrir norðaustanáttinni. Eftir helgi er spáð frosti og á aðfangadag er útlit fyrir fremur hæga norðlæga átt. Dálítil él á víð og dreif og talsvert frost.

Nú í morgunsárið er veður gærdagsins að ganga niður. Um hádegi í dag verður austlæg átt, yfirleitt á bilinu 5-13 m/s, en það telst nú ekki vindur til skaða. Svolítil él munu stinga sér niður í dag og eru líkur á því í flestum landshlutum.

Í innsveitum norðaustanlands lægir meira og rofar til og þá má búast við því að frostið nái sér á strik þar og fari niður fyrir 10 stigin. Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í nótt nálgast okkur lægð úr suðri með tilheyrandi úrkomukerfi. Það hvessir og má búast við allhvössum vindi nokkuð víða þegar kemur fram á morgundaginn. Eins og alltaf eru einhverjir staðir í skjóli og ræðst það af vindátt, til dæmis verður stærstur hluti höfuðborgarsvæðisins í skjóli á morgun og því vindur hægur þar.

„Úrkoman frá lægðinni mun lítið ná yfir á vestanvert landið. Norðantil verður úrkoman á morgun á formi snævar, en sunnantil verður ýmist rigning eða slydda meðan varir.
Dagana eftir morgundaginn og fram að jólum verður hiti lengst af undir frostmarki á landinu. Ekki er því útlit fyrir að sá snjór sem fyrir er sé á förum, en hins vegar gæti bætt á hann nokkuð víða um land. Hvar og hvenær það gerist er best að skoða nánar þegar nær dregur,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Austlæg átt 5-13 m/s um hádegi og dálítil él á víð og dreif. Hiti frá frostmarki með S-ströndinni, niður í 12 stiga frost í innsveitum NA-lands. Hvessir í nótt. Norðaustan 10-18 á morgun með slyddu eða snjókomu, en úrkomulítið V-lands.

Á laugardag:

Norðaustan 10-18 m/s, hvassast með A-ströndinni. Úrkomulítið á V-verðu landinu, annars víða snjókoma eða slydda. Hiti um og undir frostmarki, en frostlaust með S-ströndinni.

Á sunnudag:
Norðan 8-13 m/s og él, en bjartviðri sunnan heiða. Austlægari og líkur á snjókomu sunnanlands undir kvöld. Frost 1 til 7 stig.

Á mánudag:
Stíf austanátt með snjókomu eða slyddu S-lands og hita um eða undir frostmarki. Hægari vindur og þurrt N- og A-lands og frost að 10 stigum.

Á þriðjudag og miðvikudag (Þorláksmessa):
Útlit fyrir norðaustlæga eða breytilega átt. Líkur á snjókomu eða éljum í flestum landshlutum, mestar þó um landið N- og A-vert. Frost 0 til 7 stig, mest inn til landsins.

Á fimmtudag (aðfangadagur jóla):
Útlit fyrir fremur hæga norðlæga átt. Dálítil él á víð og dreif og talsvert frost.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert