Útgjöld ríkissjóðs aukast um rúma fjóra milljarða kr. á rekstrargrunni skv. tillögum meirihluta fjárlaganefndar fyrir þriðju og seinustu umræðu um fjárlagafrumvarp næsta árs. Tillögunum var dreift á Alþingi í gærkvöldi.
Í nefndarálitinu er einnig fjallað um bein áhrif stöðugleikaframlaga á ríkisfjármálin og m.a. sagt að tekjur muni aukast um rúma 340 milljarða á næsta ári vegna þeirra en rekstrarafgangur er eftir sem áður áætlaður rúmir 6,7 milljarðar á næsta ári.
Áfram er gert ráð fyrir því að útvarpsgjald lækki úr 17.800 kr. í 16.400 krónur en á móti verða 175 milljónir króna settar í tímabundið framlag til innlendrar dagskrárgerðar hjá Ríkisútvarpinu. „Það er augljóst að við þurfum að skerða dagskrá og þjónustu til þess að tryggja hallalausan rekstur,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.