„Þetta er mikill gleðidagur,“ segir Hermann Ragnarsson múrarameistari, sem sótti um íslenskan ríkisborgararétt fyrir albönsku fjölskyldurnar tvær sem fluttar voru úr landi fyrir skömmu.
Eins og mbl.is hefur fjallað um munu fjölskyldurnar öðlast ríkisborgararétt eftir að allsherjarnefnd Alþingis fundaði um málið í dag.
Hermann, sem er atvinnuveitandi annars fjölskylduföðurins, tjáði þeim tíðindin í myndsamtali fyrr í dag. Skilaboðin segir hann hafa verið eftirfarandi:
„Mér þykir mjög leiðinlegt að segja ykkur að Alþingi átti mjög erfitt með að taka þessa ákvörðun, en málið er mjög pólitískt,“ sagði Hermann í fyrstu. Segir hann þau hafa haldið á þeim tímapunkti að umsókninni hefði verið hafnað. Hélt hann svo áfram:
„En Alþingi tók samt ákvörðun, sem er sú að þeir samþykktu að þið fenguð íslenskan ríkisborgararétt. Til hamingju öll. Jólakveðja, Hemmi.“ Þá fyrst varð þeim ljóst hvers kyns væri. „Þau misstu bara andlitið og grétu.“
Gríðarmikil kúvending hefur þannig átt sér stað í málefnum fjölskyldanna. Aðeins er vika liðin síðan Hermann hófst handa við að sækja um ríkisborgararétt fyrir þeirra hönd. „Á laugardaginn fyrir viku sendi ég póst á lögfræðistofu til að hjálpa mér. Svo fórum við bara að vinna saman að þessu, ég að afla gagna og þau að skrifa greinargerð og rökstuðning fyrir veitingunni. Þetta er búin að vera gífurleg keyrsla.“
Hermann segist hafa tekið eftir því í umræðunni að þarna væri mögulega smugu að finna fyrir fjölskyldurnar, en að einhver þyrfti þó að taka af skarið og sækja um, þar sem þau gætu það ekki.
„Nú eru þau Íslendingar, ekki hælisleitendur eða flóttamenn. Ég þarf því að borga fyrir þau flugið, útvega húsnæði og húsgögn og fleira, þar sem þau fá ekki neitt hjá einum eða neinum,“ segir Hermann, og bætir við að þau muni ekki komast aftur til landsins af sjálfsdáðum.
Hafin er söfnun til styrktar fjölskyldunum tveimur og kveðst Hermann vona að þjóðin hjálpi þeim að koma fótunum undir sig. „Verkefnið er í raun rétt að byrja.“
Nánari upplýsingar um söfnunina má nálgast á styrktarsíðu fjölskyldanna.