Nóg að gera í skóginum fyrir jólin

Afrakstur grisjunar frá því í haust, tvær slíkar stæður eru …
Afrakstur grisjunar frá því í haust, tvær slíkar stæður eru í skóginum núna og eru þær um sex metra háar. mbl.is/Rax

„Við byrjum að saga niður jólatré um miðjan nóvember og gerum það áfram alveg fram að jólum. Fyrstu jólatrén sem við fellum eru stærstu trén, alveg upp í tíu metra há en þeim er ætlað að standa á torgum. Þetta árið voru öll þau stóru tekin á Tumastöðum því þau hafa verið höggvin hér í svo mörg ár, við reynum að skipta þessu á milli okkar á skógræktarstöðvunum,“ segir Níels Magnús Magnússon starfsmaður í Haukadalsskógi í Biskupstungum sem var á fullu við desemberstörfin þegar blaðamann og ljósmyndara bara að garði í skóginum. Um það bil 600 jólatré eru felld ár hvert þar í skóginum.

„Flest trén fara í stóru verslanirnar sem selja jólatré. Þetta árið er furan langvinsælust en rauðgrenið er á undanhaldi, sennilega af því að það fellir barrið fljótt.“

Fergja þarf fjalirnar

Jólaverkin í desember felast í því að fella tré sem ætlað er að standa skreytt í húsum mannfólksins, en ekki er öllu lokið þegar þau hafa verið felld, þau þarf að flytja frá þeim stað sem þau eru söguð niður, heim í skemmu og þeim þarf að pakka í net og síðan þarf að keyra þau þangað sem þau eiga að fara. En aðalstarf vetrarins er að grisja skóginn, því þá er lítið annað hægt að gera.

„Þegar við grisjum þá skapast meira pláss fyrir trén sem eru eftir og þá verða þau fallegri. Tilgangur grisjunar er einnig að gera skóginn vænlegri til útivistar.“ En grisjunin heldur áfram allan ársins hring og Níels segir að verktaki með öfluga grisjunarvél sjái um stóran hluta grisjunar og fyrir vikið hafa safnast upp stórar stæður af trjábolum í skóginum.

„Megnið af því timbri sem til fellur í grisjun fer í járnblendiverksmiðjur Elkem þar sem það er kurlað og brennt og notað í vinnsluna. Lengstu og grennstu trjábolirnir fara aftur á móti í fiskþurrkunarhjalla en sverari og styttri boli flettum við sjálfir í borðfjalir sem við seljum frá okkur. Síðan þurfum við að fergja fjalirnar svo þær vindi sig ekki, á meðan mesti rakinn er að fara úr þeim.“

Hvert einasta jólatré þarf að saga niður, bera að kerrunni …
Hvert einasta jólatré þarf að saga niður, bera að kerrunni og keyra heim á traktornum, taka niður og pakka. mbl.is/Rax

Á vorin koma erlendir nemar

Yfir veturinn eru Níels og Einar Óskarsson verkstjóri einir að störfum í skóginum, en það lifnar yfir öllu á vorin þegar skógfræðinemar koma til starfa bæði frá Írlandi og Danmörku, og þeir eru langt fram á haust.

„Við gróðursetjum í skóginum fleiri þúsund plöntur á vorin og aftur á haustin. Við gróðursetjum líka mikið af birki inni á Haukadalsheiði en þýsk ferðaskrifstofa styrkir það með því að gefa plönturnar. Það er í raun uppgræðsla, til að binda sendinn jarðveginn sem mikið blæs um,“ segir Níels sem kann einkar vel við sig í skóginum og er aldrei einn, því hundurinn hans Gils er ávallt með í för, fylgir honum eins og skuggi.

Opið alla helgina

Tvær síðustu helgarnar fyrir jól er alltaf opið í skóginum fyrir fólk sem vill koma og velja sér sitt jólatré, jafnvel sagað það niður sjálft. Í dag, laugardag, og á morgun, sunnudag, verður opið í Haukadalsskógi fyrir þá sem vilja koma og kaupa sér jólatré. Þeir Níels og Einar taka vel á móti fólki og bjóða viðskiptavinum upp á ketilkaffi. Ekið er upp að Haukadalskirkju og genginn smáspölur þaðan í rjóður þar sem trén eru sett í net.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert