Vonar að fólk fái aukin tækifæri

Kevi, 3 ára, ásamt systur sinni í Albaníu.
Kevi, 3 ára, ásamt systur sinni í Albaníu. Ljósmynd/DV

„Ég gleðst sannarlega yfir þessum fréttum, að það hafi verið staðið við þetta loforð sem fjölskyldunni var gefið og farsæl lausn fundist á þessu máli,“ segir Arndís A. K. Gunnarsdóttir, réttargæslumaður albönsku fjölskyldanna.

Búist er við að þær komi aftur til landsins í byrjun janúar, en samkvæmt nýju frumvarpi allsherjar- og menntamálanefndar munu meðlimir þeirra hljóta íslenskan ríkisborgararétt.

„En ég vil um leið lýsa vonbrigðum mínum yfir því að stjórnvöld skuli strax vera komin á þá skoðun að þetta sé ekki fordæmisgefandi. Við vonum aftur á móti að þetta mál og öll umræðan í kringum það verði til að auka tækifæri fólks sem leitar hingað eftir vernd,“ segir Arndís í samtali við mbl.is.

Hún segir það ólíklegt að fjölskyldurnar tvær hefðu fengið íslenskan ríkisborgararétt, hefði ekki verið fyrir þrýsting frá samfélaginu. „Það sýnir okkur fyrst og fremst hvað samfélagið er ósátt við kerfið eins og það er. Við munum fylgja þessu eftir og reyna að vinna með almenningi að því að koma kerfinu í það horf sem eðlilegt þykir.“

Mikill þrýstingur skapaðist í samfélaginu eftir að fjölskyldunum var vísað …
Mikill þrýstingur skapaðist í samfélaginu eftir að fjölskyldunum var vísað úr landi, mbl.is/Golli

Vilja grípa ölduna

Hún kveðst fagna umræðunni sem skapast hefur. „Það er bara ótrúlegt hversu mikill velvilji ríkir í samfélaginu gagnvart fólki sem kemur hingað í leit að vernd og aðstoð. Við viljum grípa þessa öldu.“

Um eitt hundrað Alban­ar hafa sótt um hæli hér á landi á þessu ári, sem er um þriðjung­ur hæl­is­um­sókna sem ber­ast Útlend­inga­stofn­un.

Sjá umfjöllun Sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins: Fáar leiðar færar inn í landið

Mjög skammt er liðið síðan fjölskyldunum var vísað úr landi, en í dag fá meðlimir þeirra ríkisborgararétt. Arndís segir kúvendingu sem þessa vera því sem næst fordæmalausa.

„Maður hefur enda ákveðnar áhyggjur af því, að með því að lýsa því yfir að þessi veiting sé ekki fordæmisgefandi, séu stjórnvöld að reyna að kaupa sig frá almennri lausn. En við vonum sannarlega að þetta muni leiða til einhverra breytinga. Öll þessi umræða og allur þessi velvilji og hugur almennings til að breyta kerfinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert