Frammíköll í þingsal keyrðu um þverbak á þessu þingi. Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segir að sérstaklega hafi frammíköll af ráðherrabekk vakið athygli. Líkti hún forsætis- og utanríkisráðherra við nemendur í skólastofu sem vont væri að sætu saman.
Í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun komu þau Svandís, Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og ræddu um þingstörfin sem lauk í gær fyrir jólahlé.
Svandís sagði óvenjumikla hörku hafa verið í frammíköllum í vetur. Sérstaklega hafi í annan tíma ekki sést eins mikil frammíköll af ráðherrabekkjum. Það minnist á skóla þar sem vont væri ef sumir sætu saman og vísaði hún þar til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, og Gunnars Braga Sveinssonar, utanríkisráðherra.
Ásmundur Einar tók undir að mikið hafi verið um frammíköll í þinginu en taldi þó að stjórnarandstöðunnar hafi verið heldur grimmari í þeim efnum. Keyrt hafi um þverbak og stundum hafi menn ekki heyrt í sjálfum sér í ræðustóli fyrir köllum utan úr sal.
Óttarr sagði oft skrýtið að vera í þinginu og flokksmönnum hans liði stundum eins og skilnaðarbörnum núverandi og fyrrverandi ríkisstjórnarflokka sem eyddu miklu púðri í að deila um hver gerði hvað og hvenær.
Fjárlagaumræðan í ár hafi verið löng en það hafi helgast af því að mikil pólitík hafi verið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar en að sama skapi hafi fá mál komið fram í þinginu fram að því. Þá hafi breytingatillögur verið seint á ferðinni. Þingmenn mættu ekki venja sig á þessu vinnubrögð en hlutverk þess væri að fjalla um mikilvæg mál af ábyrgð.
„Þó að það væri ógeðslega gaman stundum að sparka í vegg þá verður maður að halda í sér,“ sagði Óttarr.