Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, var dæmdur í fimm ára fangelsi í Stím-málinu svokallaða fyrir umboðssvik, en dómsuppsaga í málinu var í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Jóhannes Baldursson, sem var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis var dæmdur í 2 ára fangelsi í málinu, einnig fyrir umboðssvik. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi bankastjóri Saga Capital, var dæmdur í 18 mánaða fangelsi fyrir hlutdeild að umboðssvikum.
Lárus var ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga hjá Glitni banka þegar hann beitti sér fyrir því að félagið FS37, sem síðar varð Stim, fengi um 20 milljarða króna lán frá bankanum með veði í öllu hlutafé félagsins og bréfum í FL Group sem lánsféð var notað til að kaupa. Lánsféð var einnig notað til að kaupa bréf í Glitni.
Jóhannes var ákærður fyrir umboðssvik fyrir að hafa beitt sér fyrir því að fjárfestingasjóðurinn GLB FX, í eigu Glitnis banka, keypti framvirkt skuldabréf í Stím af Saga Capital. Þorvaldur var ákærður fyrir hlutdeild í umboðssvikum með því að hafa hvatt til þeirra viðskipta og liðsinnt Jóhannesi í þeim. Markmiðið með viðskiptunum hafi verið að tryggja að Saga Capital fengi kröfu sína að fullu bætta.
Lárus hafði áður verið sýknaður tveimur málum, Vafningsmálinu og Aurum-málinu. Lárus hafði áður verið dæmdur í héraði í 9 mánaða fangelsi í Vafningsmálinu, en Hæstiréttur sýknaði hann svo. Í Aurum-málinu var hann sýknaður ásamt öðrum ákærðu, en Hæstiréttur ógilti niðurstöðu héraðsdóms í því máli og verður málið aftur tekið fyrir á næsta ári.
Jóhannes hlaut áður dóm í BK-44 málinu svokallaða, en í héraðsdómi fékk hann fimm ára fangelsi, sem Hæstiréttur mildaði svo niður í þriggja ára fangelsi núna í vetur.